Hvað eiga konur að gera þegar karlar sýna þeim óvirðingu? Svar Igbokvenna er einfalt: Þær setjast á þá.
Skáldsagan Things Fall Apart (1958) eftir nígeríska rithöfundinn Chinua Achebe segir frá Okonkwo, ungum manni af Igbo þjóðflokknum, um það leyti er Nígería varð að breskri nýlendu.
Okonkwo heldur fast í hefðir forfeðra sinna og færir umtalsverðar fórnir til þess að viðhalda þeim. Honum tekst aftur á móti ekki að sannfæra aðra íbúa í þorpinu sínu um að hafna siðum nýlenduherranna og fremur því sjálfsmorð.
Íbúarnir átta sig fljótt á að ekkert mun verða sem áður var með komu Breta. „Heimurinn hefur engan endi. Það sem þykir gott í einu samfélagi þykir fyrirlitlegt í öðru,” segir einn þorpsbúanna þegar hann hugleiðir breytingarnar sem voru í vændum.
Báðar bækur, Things Fall Apart og framhald hennar, No Longer at Ease (1960), þykja lýsa vel þeim vandamálum sem fylgdu nútímavæðingu Nígeríu og hvernig þau brutu upp heilu samfélögin.
Meðal þess sem Achebe lýsir í bókum sínum voru tilraunir Breta til þess að koma á aukinni miðstýringu með því að skipa sérstaka héraðshöfðingja. Oftar en ekki urðu fyrir valinu menn sem höfðu engin tengsl við þorpin sem þeir áttu að vera fulltrúar fyrir.
Áður en staða héraðshöfðingja var búin til höfðu Igbo-konur umtalsverð áhrif innan samfélagsins. Þær tóku þátt í þorpsfundum og mynduðu sína eigin þrýstihópa. Með því að skipuleggja verkföll og sniðganga ákveðnar vörur á markaði gátu þær knúið á um breytingar í ákvörðunartöku öldungaráðsins.
Eftir því sem árin liðu jókst vald héraðshöfðingjanna og misbeittu þeir oft valdi sínu, meðal annars með því að gera búfénað og gróða kvenna á mörkuðum upptækan.
Árið 1929 náði óánægja Igbo-kvenna suðupunkti. Fjórum árum áður hafði breska stjórnin lagt íþyngjandi skatta á gróða af sölu pálmaolíu. Pálmaolía var þá ein helsta tekjulind innfæddra. Þó skattanir væru einungis lagðir á karlmenn þá neyddust eiginkonur þeirra iðulega til að leggja í púkkið ef ekki átti að fara illa fyrir fjölskyldunni.
Púðurtunnan sprakk 18. nóvember 1929 þegar Mark Emereuwa, héraðshöfðingi í Oloko-héraði, bað ekkju að nafni Nwanyeruwa um að telja saman húsdýr sín og fjölskyldumeðlimi. Þar sem konur áttu ekki að þurfa að svara spurningum sem þessum brást Nwanyeruwa reið við. Spurði hún á móti hvort Emereuwa hefði sjálfur talið móður sína með í manntalinu.
Eftir að Emereuwa yfirgaf heimili Nwanyeruwa efndi hún til fundar með öðrum konum í héraðinu. Á honum var ákveðið að efnt skyldi til mótmæla og farið fram á að Emereuwa yrði vikið úr embætti sínu.
Um 10.000 konur söfnuðust saman fyrir framan skrifstofu Emereuwa. Í fyrstu létu yfirvöld málið sig lítið varða, en þegar ekkert lát virtist ætla að verða á mótmælunum skipuðu þau Emereuwa að láta af allri skattlagningu á konur.
Emereuwa var ekki ánægður með þessi málalok. Til að sýna konunum hver færi með völdin rændi hann tveimur þeirra. Sú ákvörðun átti eftir að reynast honum dýrkeypt því skömmu síðar var honum vikið úr embætti. Fyrir mannránið var hann svo dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar.
Þessi óvænti sigur kvennanna í Oloko-héraði hvatti konur í öðrum héruðum Igbolands til að grípa til sömu aðgerða.
Konurnar kölluðu aðgerðir sínar kvennastríðið því að í þeirra huga höfðu þær lýst stríði á hendur karlmönnum sem höfðu vanvirt þær.
Á meðan mótmælunum stóð máluðu konurnar sig með stríðsmálningu og voru klæddar lendarskýlum einum fata. Þær báru spjót sem voru vafin pálmablöðum.
Meðal þeirra aðferða sem Igbo-konurnar beittu við mótmælin var að „sitja” á körlunum, eins og það var kallað. Athöfnin fólst í að konunar eltu mennina á röndum og neyddu þá til að hlusta á hvað þær höfðu að segja. Einnig gripu þær til þeirra ráða að syngja og dansa í kringum hús þeirra og vinnustaði þannig að þeir fengu aldrei frið. Það kom fyrir að kofar væru brenndir ef þeir neituðu að hlusta.
Bresk yfirvöld litu svo á að konunar væru lítið annað en háværir villimenn. Þegar um það bil mánuður var liðin frá því að mótmælin hófust var þolinmæði þeirra á þrotum. Lögreglumönnum var skipað að skjóta á mótmælendur. Um 50 konur létust í átökunum og aðrar 50 særðust. Fljótlega eftir þessa glæpi yfirstjórnarinnar leystust mótmælin upp.
Barátta Igbo-kvenna var þó ekki til einskis. Fjórum árum eftir að kvennastríðinu lauk var komið á nýju stjórnkerfi þar sem héraðsdómstólar leystu héraðshöfðingjana af hólmi. Staða kvenna batnaði einnig til muna og voru dæmi voru um að konur gegndu stöðu héraðsdómara.
Aðferð Igbo-kvennanna virðist sáraeinföld; að neyða karlmenn til að hlusta. Viðbrögðin voru þau að skotið var á þær. Forvitnilegt er að bera kvennastríðið 1929 saman við þann veruleika sem við nú lifum við. Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvernig brugðist er við þeim konum sem vekja athygli á stöðu kvenna og þeim aðferðum sem þær beita til þess að fanga athygli samfélagsins.