Kólumbíumaðurinn Pablo Escobar var valdamesti og ríkasti eiturlyfjakonungur sögunnar og ríkti eins og keisari á valdastóli sínum í borginni Medellín í Kólumbíu. Árið 1989 birtist hann á lista Forbes yfir ríkustu menn heims en tímaritið mat eignir hans á þrjá milljarða Bandaríkjadala. Á hátindinum var Escobar sagður ráða yfir 80% af heimsmarkaði kókaíns. Hann lést í átökum við lögreglusveitir árið 1993.
Knattspyrnumaðurinn Andrés Escobar var ekki skyldur Pablo þrátt fyrir að bera sama ættarnafn. Hann var einn besti leikmaður kólumbíska landsliðsins um árabil. Hann lenti í því óláni að skora sjálfsmark á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum sumarið 1994. Þegar hann kom heim til Medellín-borgar var hann skotinn til bana.
Heimildarmyndin The Two Escobars, Escobararnir tveir, segir sögu þessara tveggja frægu manna sem tvinnast saman á margvíslegan hátt. Þó að rætt sé sérstaklega um glæpaheiminn og knattspyrnuna fjallar myndin fyrst og fremst um ótrúlegan kafla í kólumbískri sögu.
Myndin er aðgengileg á YouTube, eins og sjá má hér að ofan, og Lemúrinn hvetur lesendur til að horfa á þessa mögnuðu heimildarmynd.