Blái bananinn var hugtak sem var þróað af franska landfræðingnum og skipulagsfræðingnum Roger Brunet. Hugtakið á við um landsvæði sem nær frá austurströnd Englands til norðurhluta Ítalíu, landsvæði sem teygir sig yfir þéttbýlasta svæði Evrópu – hvar eru einnig að finna dýrmætustu auðlindir álfunnar, ríkustu verslunarborgirnar og menntaðasta mannauðinn.

 

Meðal borga sem tilheyra Bláa banananum má nefna Leeds, Sheffield, Liverpool, Manchester, Nottingham, Lundúnir, Lille, Amsterdam, Ghent, Brussel, Antwerpen, Endhoven, Ruhr-iðnaðarsvæðið, Köln, Bonn, Frankfurt, Lúxemborg, Strasborg, Stuttgart, München, Zurich, Tórínó, Mílanó, Feneyjar og Genúa.

 

Á myndinni má sjá helstu þéttbýlisstaði Evrópu. Óneitanlega er mikil samþjöppun í Bláa banananum.

Á myndinni má sjá þéttbýlismyndun í Evrópu. Óneitanlega er mikil samþjöppun í Bláa banananum.

 

Hugtakið þróaði Brunet árið 1971 og vildi með því benda stjórnvöldum í heimalandi sínu á að Frakkland væri að heltast úr lestinni, væri ekki lengur það yfirburðaland sem það áður var í mannauði, landbúnaði og iðnframleiðslu. Brunet er af mörgum talinn faðir nútíma skipulagsfræði, en hugmyndir hans snúast að miklu leyti um að búa til mannvænt þéttbýlisskipulag sem nær því besta fram úr fólki.

 

Roger Brunet. Nettur á því.

Roger Brunet. Nettur á því.

 

Blái bananinn sýndi fram á að ójafnvægi var farið að myndast í Evrópu. Fjölmörg lönd urðu fyrir talsverðum spekileka, þar sem hæfileikaríkasta fólkið sótti í mannvænt borgarskipulag og vel borguð störf Bláa bananans. Þetta ójafnvægi var svo gott sem horfið en tók aftur kipp í kjölfar falls Sovétríkjanna og kommúnistastjórna Varsjárbandalagsins, af augljósum ástæðum.

 

Hugtakið um Bláa bananann hefur frá upphafi verið gagnrýnt fyrir ofureinföldun, þó það veki óneitanlega upp spurningar. Í kjölfarið hafa fleiri hugtök litið dagsins ljós til að útskýra byggðarþróun sem helst í hendur við vel menntaðan mannauð og hagvöxt. Þar á meðal má nefna svæði sem telur Suður-Svíþjóð, Danmörku og Norður-Þýskaland – sem er reyndar án nafns – og svo Gullna bananann. Sá banani teygir sig frá Valencia á suðurströnd Spánar, meðfram allri frönsku rivíerunni og endar loks hjá hinni sögufrægu verslunarborg og fæðingarborg Kristófers Kólumbusar, Genúa.

 

Gullni bananinn. Þar hefur orðið gífurleg framþróun í upplýsingartækni og tengdri starfsemi á síðustu áratugum sem hefur skapað íbúum strandborganna mikinn auð.

Gullni bananinn. Þar hefur orðið gífurleg framþróun í upplýsingartækni og tengdri starfsemi á síðustu áratugum sem hefur skapað íbúum strandborganna mikinn auð.