París, 10 september 1979. Lík bandarísku leikkonunnar Jean Seberg finnst vafið í teppi í skotti lítillar fólksbifreiðar. Seberg hafði horfið tíu dögum áður og skilið eftir sig bréf sem stílað var á son hennar. „Ég get ekki lifað lengur með taugunum mínum,” stóð í bréfinu. Seberg var 41 árs gömul.
Jean Dorothy Seberg, sem var af sænskum ættum, ólst upp í litlum smábæ í Iowa-ríki.
Fjölskylda hennar var kirkjurækið fólk og aðeins fjórtán ára gömul hóf hún störf sem kennari í sunnudagsskóla. Lúterskt uppeldi Seberg hafði mjög mótandi áhrif á hana. Að sögn aðstandenda hennar var hún þjökuð af sektarkennd alla sína ævi sökum þeirra forréttinda sem hún naut sem hvít kona í miðríkjum Bandaríkjanna.
Seberg vildi ávallt hjálpa þeim sem minnst máttu sín í samfélaginu. Sérstaklega var henni umhugað um réttindabarráttu blökkumanna. Þegar Seberg var 18 ára gömul skráði hún sig NAACP, samtök sem börðust fyrir borgaralegum réttindum blökkumanna. Faðir hennar var ekki alls kostar hrifinn þar sem samtökin voru sögð kommúnísk. Seberg lét aftur á móti slíka gagnrýni sem vind um eyru þjóta.
Þegar Seberg var 17 ára gömul sótti hún um hlutverk Jóhönnu af Örk í samnefndri mynd. Alls vildu 18.000 stúlkur hreppa hlutverkið.
Leikstjóri myndarinnar var hinn þýski Otto Preminger. Hann var áhrifamikill maður í Hollywood á sjötta áratugnum. Preminger var alræmdur fyrir meðferð sína á leikkonum. Tvær leikkonur sem léku í myndum hans, þær Dorothy Dandridge og Maggie McNamara, áttu síðar eftir að fremja sjálfsmorð.
Preminger reyndist Seberg hinn versti harðstjóri. Hver einasta stund var skipulögð í þaula. Var leikkonunni ungu meðal annars ekki leyft að fara heim til foreldra sinna yfir hátíðarnar. Að sögn sjónarvotta beitti Preminger Seberg andlegu ofbeldi og lét reglulega rigna yfir hana háðsglósum. „Þú ert lítil hnáta, hvað fær þig til að halda að þú getur leikið,” á hann eitt sinn að hafa sagt.
Eitt sinn leyfði Preminger fjölmiðlum að mæta í upptöku á atriðinu þar sem Jóhanna er brennd á bálkestinum. Ekki fór betur en svo að það kviknaði í leikmyndinni vegna bilunar í vélarbúnaði. Seberg fékk brunasár sem skildu eftir sig ljót ör. Komst sá orðrómur á kreik að Preminger hafi sjálfur ollið brunanum í auglýsingaskyni.
Næsta mynd Seberg var tekin upp í Frakklandi. Þar kynntist hún fyrsta eiginmanni sínum, ungum frönskum lögmanni, en sagt er að hann hafi grátið með ekkasogum í brúðkaupi þeirra. Hjónaband þeirra entist ekki lengi.
Í Frakklandi gafst Seberg tækifæri til að leika í myndum ungra og upprennandi leikstjóra. Þekktasta hlutverk hennar var líklega í kvikmynd Jean-Luc Godard, À bout de souffle (e. Breathless), frá árinu 1962. Í svo miklum metum var hún að Francois Truffaut átti eitt sinn að hafa sagt að Seberg væri besta leikkona heims. Hér er atriði úr þessari mynd:
Árið 1962 kynntist Seberg franska rithöfundinum Romain Gary og féllu þau fljótt hugi saman. Samband þeirra var umdeilt. Hann var giftur maður þegar þau kynntust og 24 árum eldri en hún. Saman áttu hjónin einn son.
Á seinni hluta sjöunda áratugarins gaf Seberg rúmlega 10.000 dollara til Black Panther hreyfingarinnar. Meðlimir hreyfingarinnar voru einnig reglulegir gestir á heimili Seberg. Samkvæmt frásögn sonar hennar nýttu þeir sér samviskubit leikkonunar til þess að kúga úr henni peninga.
Árið 1970 eignaðist Seberg sitt annað barn. Stúlkan, sem var getin utan hjónabands, lifði aðeins í tvo daga en hún fæddist langt fyrir tímann. Á meðan meðgöngu stóð birtist grein í slúðurdálki Newsweek þar sem fullyrt var að barnsfaðirinn væri meðlimur Black Panther-hreyfingarinnar.
Fréttin var uppspuni frá rótum runnin undan rifjum alríkislögreglunnar. J. Edgar Hoover, yfirmaður stofnunarinnar, hafði yfirumsjón með aðgerðinni. Bað hann ritstjórn blaðsins sérstalega um að bíða með birtingu greinarinnar uns þungun leikkonunnar væri orðin öllum auðsýnileg.
Markmið alríkislögreglunnar var að „sverta þá ímynd sem almenningur hafði af Seberg“, sem hún skilgreindi sem „kynlífsöfugugga” og andófskonu.
Að sögn Seberg fékk fréttin svo mikið á hana að hún fékk ótímabærar hríðir.
Útförin fór fram í heimabæ Seberg. Lét hún hafa opna kistu svo fjölmiðlar gætu séð að litarhaft stúlkunnar var hvítt.
Þetta voru ekki einu afskipti alríkislögreglunnar af leikkonunni. Í bréfi sem birt var eftir dauða Seberg kom í ljós að lögreglan hafði hlerað síma hennar. Vinir Seberg sögðu hana einnig hafa kvartað sáran undan því að menn eltu hana hvert fótmál og fylgdust með henni.
Seberg þjáðist af gífurlegu þunglyndi allan áttunda áratuginn og að sögn sonar hennar reyndi hún margsinnis að fremja sjálfsvíg (hún átti til dæmis að hafa reynt að kasta sér fyrir neðanjarðarlest í París).
Skömmu fyrir andlát sitt kynntis Seberg alsírskum manni að nafni Ahmed Hasni og ákvað að flytja með honum til Barcelona. Sú dvöl var þó stutt því aðeins nokkrum vikum síðar var hún aftur komin til Parísar. Er Hasni sagður hafa misnotað hana þann tíma sem þau voru í Barcelona.
Þegar Seberg tók líf sitt voru rétt um það bil tíu ár liðin frá dauða dóttur hennar. Ári síðar tók Romain Gary einnig líf sitt. Í sjálfsmorðsbréfi sínu tók Gary fram að ákvörðun hans hafði ekkert með dauða fyrrum eiginkonu sinnar að gera.
Saga Jean Seberg gefur innsýn í tíma þar sem skuggi kalda stríðsins vofði yfir öllu. Mannréttindi voru fótum troðin og það veitti litla vernd að vera Hollywood stjarna. Því frægari sem þú varst, því líkegri varstu til að lenda undir smásjánni hjá J. Edgar Hoover. Hvað breyst hefur síðan þá skal ósagt látið.
Seberg í À bout de souffle: