Í dag minnast fjölmiðlar um allan heim þess að 50 ár eru liðin frá dauða John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna. Í dag minnist Lemúrinn þess einnig að 50 ár eru liðin frá öllu gleðilegri atburði, útgáfu fyrstu konseptplötunnar og bestu jólaplötu allra tíma, A Christmas Gift for You from Philles Records.
Nú á dögum, þegar hægt er að kaupa einstakt lag, með einum músarsmelli og 99 sentum, heyrist oft tuð um að í gamla daga hafi listamenn gefið allt sitt í að gefa út plötur sem heilstætt verk. Hápunktur þessara tíma hafi verið konseptplöturnar. Á þeim áttu öll lögin að mynda heild og segja eitthvað. Þessi staðhæfing er náttúrulega bull, frá upphafi rokksins og poppsins var áherslan lögð á smáskífur, 7 tommu plötur með einu lagi á A-hlið og öðru á B-hlið.
Sem listform náði smáskífan hápunkti í útgáfum upptökustjórans Phil Spectors. Spector var með stjórnunaráráttu og þoldi ekki þá tilhugsun að plötusnúðar myndu snúa smáskífum hans yfir á B-hliðina og gera hratið að smelli. Því brá hann á það ráð að taka setja jazz-spuna session-hljóðfæraleikaranna á B-hliðina. Þessi árátta Spectors var reyndar skiljanleg þar sem hann eyddi jafn miklum tíma í upptökur á einu lagi og aðrir eyddu í heilar plötur. Hann hafði óbeit á LP plötunni, sagði að á þeim væru mesta lagi einn til tveir smellir en restin væri uppfyllingarefni.
Það kvað við annan tón þegar Spector hóf að safna saman helstu stjörnum Philles útgáfu sinnar sumarið 1963 til að taka upp jólaplötu, sennilega fyrstu concept plötu sögunnar. Útkoman varð sú að í dag tengja sennilega flestir Wall of Sound-hljóm Spectors óaðvitandi við jólin.
Hljómurinn fékkst með því að troða allt of mörgum hljóðfæraleikurum inn í of lítið rými. Hljóðið frá strengjunum lak inn á hljóðrásir blásturhljóðfæra, trommusettin tvö láku inn á kórinn sem lak inn á hristur, tambúrínur og bjöllur og svo framvegis. Öll þessi súpa var síðan leidd niður í kjallara Gold Star hljóðversins út um hátalara í endurómsklefa þaðan sem endurómurinn fór aftur upp í stjórnherbergið.
Jólaandinn nær hámarki í lokalagi plötunnar Silent Night þegar upptökustjórinn stígur upp frá stjórnborðinu og flytur hlustandanum jólakveðju frá sér og öllum hjá Philles.
Útkoman varð einhvers konar hljóðrænn ópíumskýhnoðri sem hefur verið marinerað í hunangi, flórsykri, frönsku núggati og röddum Ronettes, Darlene Love, Bob B. Soxx og The Crystals. Lögin á plötunni urðu jafn jólaleg og Coka-Cola, negull, malt og appelsín og piparkökur. Þó ekki um leið.
Platan A Christmas Gift for You from Philles Records, þessi hápunktur bandarískrar unglingatónlistar kom út sama dag og John F. Kennedy var ráðinn af dögum, 22. nóvember 1963, féll í skuggann af þeim atburði og vakti litla athygli. Það var ekki fyrr en árið 1972 að platan fékk uppreist æru þegar Apple útgáfufélag Bítlanna endurútgaf plötunna undir nafninu Phil Spector’s Christmas Album. Árið áður hafði John Lennon fengið Spector til að taka upp jólalag sitt Happy Xmas (War is over).