Eitt þekktasta vörumerki heims sýnir mynd af epli sem er búið að taka einn bita af. Vörkumerkið, sem er oftar en ekki upplýst aftan á fartölvum, spjaldtölvum, tónhlöðum – já, öllu sem hefur forskeytið „i.“ Hér er vitaskuld átt við vörumerki Apple Computers, verðmætasta fyrirtækis veraldar.

„Ó, nei! Ekki borða eplið Eva!“ Málverk eftir ítalska málarann Titian frá 16. öld.

„Ó, nei! Ekki borða eplið Eva!“ Málverk eftir ítalska málarann Titian frá 16. öld.

 

En hver er sagan á bak við vörumerkið? Augljóslega mætti halda að hér sé um biblíuvísun að ræða. Í fyrstu Mósebók, betur þekktri sem Genesis á alþjóðavísu, segir frá fyrstu mannverunum, Adam og Evu, og hvernig Eva var ginnt til að taka bita af forboðna ávextinum. Einn biti var allt sem þurfti og var parið gert útlægt frá aldingarðinum Eden í kjölfar hins örlagaríka bita (lexían var auðvitað sú að konur eiga ekki að taka af skarið, heldur hlusta á Guð og eiginmann – annars fer illa fyrir öllum. Sem er nákvæmlega eins heimskulegt og fáránlegt og það hljómar).

 

 

Ein lífseigasta flökkusaga sem til er um vörumerkið er þó öllu nýrri og snertir einn helsta brautryðjanda tölvunarfræðinnar á 20. öld, mann að nafni Alan Turing.

 

Turing þessi var bráðgáfaður, svokallaður snillingur. Hann nam sín fræði við Cambridge-háskóla og síðar Princeton-háskóla í Bandaríkjunum, en þaðan lauk hann doktorsprófi árið 1938.

Turing árið 1951.

Turing árið 1951.

 

Í seinna stríði var Turing ráðinn til starfa af stjórnvöldum við að leysa dulmál Þjóðverja. Enginn var Turing fremri við þessa iðju og var hann fljótlega orðinn helsti dulmálssérfræðingur GCCS, Government Code and Cypher School. Það var þar sem Turing náði að leysa dulkóða Enigma-dulmáls Þjóðverja og ganga margir svo langt að segja að þar með hafi mikilvægasti áfangi stríðsins verið unninn – að Turing hafi verið helsta ástæðan fyrir sigri bandamanna í seinna stríði.

 

Skömmu eftir stríð dundi ógæfan yfir, eða öllu heldur óréttlætið. Turing var samkynhneigður og hóf í ársbyrjun 1952 samband við Arnold Murray, 19 ára pilt sem hann hafði hitt í kvikmyndahúsi. Skömmu síðar var brotist inn til Turings og sagði Murray að sökudólgurinn væri líklega kunningi hans. Turing kallaði á lögreglu til að rannsaka vettvang glæpsins, en ekki leið á löngu uns lögreglumennirnir gerðust forvitnari um einkalíf Turings. Vegna rannsóknarinnar á innbrotinu þurfti Turing að játa samkynhneigð sína, sem var þá enn ólögleg í Bretlandi.

 

Turing var dæmdur sekur fyrir skort á velsæmi, eins og það var kallað, í marsmánuði 1952. Velsæmislögin voru frá árinu 1885 og þess má geta að sá sem var síðast dæmdur fyrir skort á velsæmi, á undan Turing, var annar snillingur – írska leikskáldið og háðfuglinn Oscar Wilde.

 

Oscar Wilde var dæmdur fyrir skort á velsæmi árið 1895. Hann var dæmdur til þrælkunarvinnu og fangelsisvistar.

Oscar Wilde var dæmdur fyrir skort á velsæmi árið 1895. Hann var dæmdur til þrælkunarvinnu og fangelsisvistar.

 

Dómsyfirvöld sáu í hendi sér, að það myndi ekki gagnast bresku samfélagi að hafa Turing, einn gáfaðasta mann þjóðarinnar, í fangelsi. Turing fékk því annan kost, sem var að gangast undir hormónameðferð sem myndi draga úr „dýrslegum hvötum“ hans í kynlíf með karlmönnum.

 

Turing þáði það, og gekkst undir estrógen-meðferð – sem átti að gera út af við kynhvötina. Það tókst, og gott betur. Hormónamisvægið olli miklum skapsveiflum, þunglyndi og dró úr lífsvilja Turings. Líkami hans breyttist, mjaðmir breikkuðu og brjóst stækkuðu umtalsvert. Brjóst hans voru meira að segja farin að mjólka á tímabili.

 

Mjallhvít og dvergarnir sjö, frá árinu 1937, var eftirlætis kvikmynd Turings.

Mjallhvít og dvergarnir sjö, frá árinu 1937, var eftirlætis kvikmynd Turings.

 

Árið 1954 hafði Turing fengið nóg, lífsviljinn var á þrotum. Hann ákvað að sprauta epli fullt af blásýru og taka af því bita. Var Turing sjálfur þar með að vitna eitraða eplið úr eftirlætis kvikmynd sinni um Mjallhvíti og dvergana sjö sem Walt Disney framleiddi árið 1937. Turing fannst látinn 8. júní 1954, við hlið hans var epli sem búið var að bíta í einu sinni.

 

Það kemur því ekki á óvart, að sagan skuli vera lífseig – um að Apple og stofnandi fyrirtækisins, Steve Jobs, hafi viljað sýna þessum frumkvöðli þá virðingu að byggja vörumerki sitt hinum dramatíska dauðdaga.

 

Þess skal þó getið, að leikarinn, rithöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Stephen Fry tók eitt sinn sjónvarpsviðtal við Steve Jobs. Fry var málið hugleikið enda mikill mannréttindafrömuður sjálfur, þá sérstaklega þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Fry hefur til að mynda barist fyrir því að Oscar Wilde verði náðaður fyrir „glæpi“ sína og þar með Turing einnig – ásamt hundruðum annarra.

 

Í stuttu máli sagði Jobs að Turing hefði ekki verið innblásturinn þegar kom að hönnun vörumerkisins. „Guð, hvað ég vildi að svo hefði verið,“ sagði hann. Sagði Jobs að hann og Steve Wozniak, annar stofnandi Apple, hefðu einfadlega fengið hugmyndina að nafninu eftir að þeir höfðu eytt degi í skoðunarferð á eplabýli. Já, ok.

 

Steve Jobs og Steve Wozniak á 8. áratugnum. Þeir voru miklir Bítlaaðdáendur, sem gæti verið önnur skýring fyrir nafni Apple.

Steve Jobs og Steve Wozniak á 8. áratugnum. Þeir voru miklir Bítlaaðdáendur, sem gæti verið önnur skýring fyrir nafni Apple.

 

Því má annars bæta við að nú í sumar var mál Turings tekið fyrir í lávarðadeild Breska þingsins og búast má við því að hann verði náðaður eftir dauðdaga sinn (post-mortem pardon) í byrjun næsta árs.