Lemúrinn rifjaði upp söguna af Varg Vikernes í norsku blakkmetalsveitinni Mayhem. En hann myrti Øystein Aarseth, félaga sinn úr hljómsveitinni í ágúst 1993. Stakk hann 23 sinnum. Nú hefur bassaleikarinn, „Grishnackh greifi“, öðru nafni Varg Vikernes, komist aftur í fréttir en hann hefur verið handtekinn í Frakklandi grunaður um að skipuleggja hryðjuverk. Árið 1994 birtist í Pressunni umfjöllun Dr. Gunna um málið og viðtal við Íslendinginn Unnar Björnsson sem var pennavinur Vargs Vikernes í fangelsinu. Einnig var rætt við Unnar á Vísi í dag.
„Fyrir nokkrum mánuðum fékk Unnar Björnsson, trommari í íslensku hljómsveitinni Cranium, bréf úr fangelsinu frá Count [Vikernes].
„Count talar ekkert um það sem hefur verið að gerast,“ segir Unnar, „en hann kvartar yfir aðbúnaðinum í fangelsinu. Hann segir að þetta sé versta fangelsi Noregs og þar sé 80% litað fólk, „mannlegt sorp“, eins og hann kallar það. Hann skipar mér að gera Ísland heiðið á ný.“
Bréfin eru ekki skrifuð með blóði, en Count hefur nógan tíma til að skreyta þau með rúnum og hakakrossum.
„Count er helst að spurja um Ísland,“ heldur Unnar áfram, „hann lítur mikið upp til þjóðarinnar því hér er svo lítið af svertingjum. Hann er auðvitað helvítis kynþáttahatari og léttklikkaður. Hann segir að annaðhvort verði honum sleppt í maí eða fluttur í nýtt fangelsi. Það er bara vonandi að honum verði sleppt svo ég geti boðið honum til Íslands og við getum farið að brenna kirkjur saman. Nei nei, smágrín.““