Það eru fáar styttur í Reykjavík jafn dularfullar og styttan af berlínarbirninum sem er að finna við horn Hellusunds, Laufásvegar og Þingholtsstrætis. Styttan, sem hefur verið besti vinur kvenskælinga undanfarin 16 ár eða svo, var gjöf til Reykjavíkur frá íbúum Berlínar.
Stytta þessi er eftir þýsku listakonuna Renée Sintenis þó líklega sé um afsteypu að ræða. Hún er úr málmblöndu en í Þýskalandi er að finna nokkrar sem eru úr bronsi. Fjölmargir slíkir birnir eru á sveimi víðsvegar um Þýskaland en þeirra þekktastur er sennilega mini-útgáfan, sem er einmitt verðlaunagripur kvikmyndahátíðarinnar í Berlín.
Hugmyndina má rekja til 6. áratugar síðustu aldar, þegar skipting Þýskalands og síðar Berlínar í áhrifasvæði austurs og vesturs var orðin að veruleika. Vesturhluti Berlínar var eins og nokkurs konar vin frelsis og lýðræðis í eyðimörk kúgunar og einræðis. Útgefandi dagblaðsins Die Zeit, Gerd Bucerius, fékk þá hugmynd að minna Þjóðverja á fjarlægðina til Berlínar með svokölluðum „mílusteinum“, eða Meilensteine.
Sintenis fékk þá hugmynd að smíða björn í stað þess að hafa einungis tölur skornar í stein. Fyrsti berlínarbjörninn af þessari tegund var komið fyrir árið 1957 við A115 hraðbrautina við Dreilinden í úthverfi Berlínar. Frumútgáfuna, allra fyrsta björninn, má hins vegar finna við Renée Sintenis grunnskólann í Frohnau, sem er úthverfi rétt norður af Berlín. Sú stytta sker sig einnig úr, því á henni er enginn kílómetrafjöldi.
Kílómetrafjöldinn er annars miðaður við Dönhoff-torgið, Dönhoffplatz, sem er að finna við Leipzigerstraβe rétt austan við borgarmörkin sem skiptu Berlín í tvennt á tímum Kalda stríðsins.
Víðförull björn
Berlínarbjörninn okkar kom hingað til lands árið 1967. Hann var gjöf til Reykjavíkur frá íbúum Berlínar en það var enginn annar en Willy Brandt sem færði Reykjavíkurbúum björninn þegar hann kom til Íslands í opinbera heimsókn fyrir réttum 46 árum. Brandt var þá utanríkisráðherra Vestur-Þýskalands en þar áður hafði hann verið borgarstjóri Vestur-Berlínar.
Sem slíkur kenndi hann til að mynda John F. Kennedy að bera fram „Ich bin ein Berliner“, þó deila megi um árangur þeirrar framburðarkennslu. Tveimur árum eftir heimsókn Brandt til Íslands varð hann síðan sambandskanslari. Hann hlaut einnig friðarverðlaun Nóbels árið 1971 fyrir að koma á samskiptum milli Austur-og Vestur-Þýskalands á ný.
Eftir að björninn kom fyrst til Reykjavíkur var honum komið fyrir í Hljómskálagarðinum. Þar átti hann heima í 21 ár, uns hann var fluttur á horn Sóleyjargötu og Skothúsvegar – í raun fyrir framan húsið sem hýsir embætti forseta Íslands í dag. Árið 1996 flutti embættið einmitt þangað og þá þurfti björninn að víkja. Hann eyddi heilu ári inni í geymslu listasafns Reykjavíkur en fékk síðan varanlegt heimili rétt fyrir utan þýska sendiráðið við Hellusund. Vonandi mun hann standa sem lengst og halda áfram að minna okkur á fjarlægðina til Berlínar, höfuðborgar döners, second-hand fatabúða og Club Mate. Sú fjarlægð er 2380 kílómetrar.