Spreepark var stór skemmtigarður í útjaðri Berlínar sem var stofnaður um 1970 í Austur-Þýskalandi. Hann var eini skemmtigarðurinn þar í landi. Eftir fall múrsins stækkaði garðurinn ört enda gátu gestir nú streymt að úr öllum áttum. En mikil fjármálaóreiða og eyðsla í rekstri endaði með gjaldþroti Spreepark árið 2001.
Júlía Björnsdóttir og Þórir Ingvarsson fóru á dögunum í skoðunarferð í Spreepark, sem nú er líkastur draugabæ. Þau gáfu Lemúrnum góðfúslegt leyfi til að birta myndir þeirra úr þessum einstaka göngutúr.
Þau skrifa: „Við fórum um daginn í leiðsögn um hinn fornfræga skemmtigarð Spreepark. Garðurinn fór á hausinn árið 2001 og hefur drabbast niður síðan. Dóttir eigandans sá um túrinn, en fjölskylda hennar var vægast sagt í sviðsljósinu á sínum tíma. Pabbi hennar og bróðir áformuðu að bjarga fjárhagnum með því að smygla smá kókaíni til Þýskalands (167kg) inni í skemmtitæki sem hann var að flytja inn frá Perú. Það fór allt mjög illa og þeir feðgar sitja í fangelsi, faðirinn í Þýskalandi og sonurinn í Perú.“
„Dóttirin sem sá um gönguferðina dregur ekkert undan og er til í að svara öllum spurningum um garðinn og fjölskylduna. Afar áhugavert í alla staði.“