Jesco White betur þekktur sem „Dansandi útlaginn“ er bandarískur skemmtikraftur, fjalladansari og költfígúra. Hann er hvað þekktastur í Bandaríkjunum fyrir að vera umfjöllunarefni heimildarmyndanna: Dancing Outlaw, Dancing Outlaw II: Jesco Goes to Hollywood og The Wild and Wonderful Whites of West Virginia. Árið 2009 var einnig gerð leikin mynd um ævintýri Jesco, ber hún heitið White Lightnin’.

 

Jesco fæddist í Bandytown, litlu samfélagi í Appalasíufjöllum í Boone sýslu í Vestur-Virginíu árið 1956. Atvinnuleysi og fátækt er viðvarandi vandamál í bæjum Appalasíufjalla og hefur það ásamt óreglu haft mikil áhrif á lífshlaup Jesco og fjölskyldu hans.

 

Donald Ray White (1927-1985), höfuð fjölskyldunnar og kolanámumaður, sá fyrir fjölskyldu sinni og fjármagnaði óreglu sína með svokölluðu „vanvitameðlagi“ (e. „crazy checks“) sem hann fékk greitt með börnum sínum. Lét hann skrá börnin sem vanvita og geðsjúklinga og hafði þau þannig að féþúfu.

 

Donald lést sumarið 1985 þegar nágranni hans Steve Rowe skaut hann til bana með haglabyssu og særði bræðurna Jesco og Dorsey. Fyrr sama dag höfðu Dorsey og Steve slegist þar sem meðal annars beltissylgjum og keðjusög var beitt sem vopnum.

 

Veikleikar White fjölskyldunnar hafa alla tíð verið áfengi og vímuefni af hvers kyns tagi. Jesco sker sig þó út frá hinum fjölskyldumeðlimunum því að það er hvorki krakk né brennt áfengi sem á hug hans allan heldur lím og bensín. Fann Jesco upp leið til þess að komast í það sem hann kallar „tvöfalda ofurvímu“: Byrjað er á því að sniffa módellím úr bréfpoka og vímunni sem fæst með þeirri aðferð er síðan fylgt eftir strax með því að sniffa blöndu af bensíni, málningu og kveikjarabensíni.

 

Eiginkonu sinni Normu Jean kynntist Jesco einnig fyrir mátt límsins, en hann ætlaði að stela bíl hennar til þess að fjármagna límneyslu sína. Til allrar hamingju fyrir hjónakornin þá urðu þau ástfangin áður en honum tókst að stela bílnum.

 

Eins og fyrr sagði þá er Jesco aðalumfjöllunarefni fjögurra mynda um hann og fjölskyldu hans. Jesco sést einnig bregða fyrir í myndbandi við lagið „Loser“ sem Beck sló í gegn með árið 1994.

 

Vídjó

Dancing Outlaw

 

Vídjó

Jesco talar um að sniffa

 

Vídjó

Beck, „Loser“

 

Vídjó

White Lightnin’