Lemúrar, dýrin sem veftímaritið Lemúrinn dregur nafn sitt af, búa eins og frægt er einungis á eyjunni Madagaskar við austurströnd Afríku.
Þó er hægt að komast í merkilegt návígi við lemúra á Norðurlöndunum. Skansen í miðborg Stokkhólms er einskonar blanda af Árbæjarsafni og dýragarði sem sérhæfir sig í skandinavískum dýrum — gaupum, elgum og fleira.
En þar er einnig hægt að kynnast nokkrum framandi dýrategundum eins og frændum okkur, lemúrum. Á Skansen býr stór hópur kattalemúra eða hringrófulemúra (lemúrategundir eru alls 104 talsins) í stóru búri sem gestir garðsins geta gengið frjálst um og þannig kynnst lemúrum í návígi.
Lemúrar eru forvitnar skepnur og eiga það til að príla á gestum — auðvitað alltaf í fyllstu vinsemd. Vefritið Lemúrinn skrapp í heimsókn til lemúranna á Skansen á sólríkum degi um helgina og tók nokkrar myndir af þessum frændum sínum.