Vídjó

BBC hóf vikulegar útsendingar á íslensku 1. desember 1940. Það tengdist hernáminu sem hófst í maí sama ár. Bretar vildu líklega styrkja tengslin við Íslendinga. Hér talar Gabriel Turville-Petre, breskur norrænufræðingur sem sérhæfði sig í íslenska sagnaarfinum og talaði reiprennandi íslensku. Þessi síðasti þáttur var á dagskrá 25. júní árið 1944.

 

En Bretar voru ekki þeir einu sem sendu skilaboð með útvarpsbylgjum til Íslands. Það gerði einnig Þýskaland nasimans.

 

Grípum niður í greinina Stríðið á öldum ljósvakans eftir Ásgeir Eggertsson:

 

Hjá breska áróðursmálaráðuneytinu hafði Grace Thornton umsjón með útsendingunum á íslensku og hún var jafnframt yfirmaður Íslendinganna sem störfuðu við þessa þætti. Grace Thornton hafði lagt stund á norræn fræði og var því að nokkru leyti kunnug málefnum landsins. Grace Thornton hafði mikil samskipti við James Tudor Jones sem starfaði hjá BBC. Þau sáu um að samræma ýmislegt á milli þessara tveggja stofnana. Sex dögum áður en íslensku útsendingarnar hefjast skrifar James Tudor Jones starfsmönnum sínum og tilkynnir þeim að þess sé stutt að bíða að íslensku þættirnir hefji göngu sína.

 

Næsta sunnudag, þann 1. desember klukkan 14:30, hefst reglubundin útsending til Íslands. Um er að ræða 15 mínútna þætti. G.P.P. sendir verður notaður til þessa. Á dagskrá þáttarins næstkomandi sunnudag verður:
 
Íslenski þjóðsöngurinn
Orðsending frá sendifulltrúa Íslands
Kveðja á ensku frá Harold Nicholson
Ræða á íslensku sem Turville Petre flytur
 
Má ég biðja þig um að sjá um að hljóðstofa verði tekin frá, að réttar línur og tengingar verði til staðar, sem og upptaka af íslenska þjóðsöngnum. Æfingar hefjast klukkan 12:30 á sunnudaginn.