Vídjó

Sprengingin í kjarnaofni 4 í kjarnorkuverinu í Tsjernóbýl, 26. apríl 1986, er af flestum talin alvarlegasta kjarnorkuslys sögunnar.

Allt til ársins 2011 var þetta eina slysið af stærðargráðunni 7 sem átt hafði sér stað í heiminum en þá dundu miklar hörmungar yfir í Daiichi-kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan.

Afleiðingar slyssins voru geigvænlegar. Geislun og önnur mengun frá verinu dreifðust um alla Evrópu en áhrifin urðu þó greinilegust í næsta nágrenni við slysstað. Fram til ársins 2000 þurftu um 350.000 manns að yfirgefa heimili sín á einhverjum tímapunkti, þar af var gríðarlegur fjöldi í Hvíta-Rússlandi en um 60% af hinu geislavirka úrfelli lenti þar.

Hvergi er þó stærri og áhrifameiri minnisvarði um Tsjernóbýl slysið en borgin Pripyat. Borginni var komið á laggirnar árið 1970 til að tryggja starfsmönnum kjarnorkuversins og fjölskyldum þeirra heimili. Borgin stækkaði hratt og var ansi blómleg árið 1986 en þá bjuggu um 49.000 manns þar.

Eftir slysið þurfti hver einasta sál að flytjast á brott. Fyrstu fréttir af slysinu voru nokkuð óljósar og borgarbúum tjáð að tæming borgarinnar væri aðeins tímabundin. Fljótlega kom þó í ljós að atburðirnir voru af mjög alvarlegum toga og borgarbúar snéru aldrei aftur og í dag er hún yfirgefin draugaborg.

Þessi staðreynd gerir sjónarspilið í borginni enn magnaðara og allt umhverfið er sveipað einhverri sérstakri dulúð. Leikföng liggja á víð og dreif, bækur, blöð og aðrir hversdaglegir hlutir liggja eins á hráviður hér og þar og bíða eftir að eigendur þeirra taki þá aftur upp og haldi áfram með sitt daglega líf. Það verður þó væntanlega aldrei þar sem yfirvöld í Úkraínu áætla að það taki 600-900 ár fyrir svæðið að jafna sig og sennilega verður það í raun ekki fullkomlega öruggt fyrr en eftir 20.000 ár, í það minnsta.

En þó svo að svæðið verði ekki byggilegt um aldir alda er mönnum óhætt að heimsækja það um skamma stund í einu. Það hefur töluvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn og ýmsir aðilar bjóða uppá skipulagðar ferðir um það. Svæðið er að vísu vandlega girt af og vopnaðir verðir gæta þess. En það er tiltölulega auðvelt að fá leyfi til að ferðast um það og það var einmitt það sem þessir kvikmyndamenn gerðu árið 2011 og tóku upp þessa áhugaverðu heimildamynd.

Myndefnið er einu orði sagt magnað.