Vídjó

Í dag fer fram útför Margaret Thatcher, sem lést áttunda apríl síðastliðinn, 87 ára að aldri. Athöfnin fer fram í Pálskirkjunni í London og munu mörg fyrirmenni mæta, þar á meðal Elísabet Bretadrottning. Er þetta aðeins í annað sinn sem hún mætir í útför bresks forsætisráðherra, en það fyrra var í janúar árið 1965. Var það útför Winston Churchill sem hafði látist af völdum hjartaáfalls. Var hann búinn að vera nokkuð heilsuveill og hafði þurft að láta af embætti forsætisráðherra af þeim sökum 10 árum fyrr.

 

Meira en 300.000 manns vottuðu honum virðingu sína í Westminster Hall þar sem kistan var til sýnis í þrjá daga. Þá var kistan flutt með athöfn í gegnum miðborg Lundúna meðan múgur og margmenni voru við kistuleiðina og milljónir manna um víða veröld fylgdust með í sjónvarpi. Lá leiðin til Pálskirkju þar sem m.a. fulltrúar 112 þjóða voru viðstaddir athöfnina.

 

Að henni lokinni var kistan flutt upp Thamesána um borð í bátnum Havengore og voru kolakranar við bakka árinnar látnir síga þegar kistan átti leið hjá. Þaðan lá leiðin til Waterloo stöðvarinnar og var kistan flutt með lest til æskuslóða Churchill í Oxfordskíri. Þar var hann grafinn í Bladonkirkjugarði, nálægt ættaróðali fjölskyldu hans, Blenheim höllinni þar sem hann hafði fæðst 90 árum fyrr.

 

Hér að ofan má sjá myndband í lit af útförinni og hlusta á lífvörð Churchills, Walter H. Thompson, segja frá.

 

Meira: Umfjöllun BBC um útförina fyrir 47 árum.