Margir kannast við stéttleysingjana á Indlandi, fjölda fólks sem útskúfaður er úr samfélaginu og álitinn óhreinn. Aðkomuþjóðirnar Sígaunar og Gyðingar hafa ekki átt sjö dagana sæla í Evrópusögunni. En færri vita að fram til 20. aldarinnar bjó í Frakklandi hópur útskúfaðra stéttleysingja af dularfullum uppruna.
Kagótar (Cagots) nefndust þessir stéttleysingjar og bjuggu í Píreneafjöllunum á landamærum Frakklands og Spánar og í frönsku strandhéruðunum allt norður til Bretóníuskaga. Til eru heimildir um þetta fólk allt aftur til ársins 1000, en elstu öruggu heimildir eru frá 13. öld og er af þeim ljóst að Kagótar voru orðnir úrhrök samfélagsins á miðöldum.
Kagótar voru algerlega stétt- og stöðulausir. Þeir máttu ekki búa í þorpunum, heldur hírðust fyrir utan þau í kofaskriflum. Þeir máttu ekki stunda landbúnað eða halda húsdýr. Einu störfin sem þeim leyfðist að gegna var að vinna timbur, slátra dýrum og grafa látna.
Breska blaðið The Independent birti árið 2008 viðtal við Marie-Pierre Manet-Beauzac, konu frá Frakklandi sem talin var síðasti Kagótinn.
Ósnertanlegir og útskúfaðir
Kagótar voru álitnir óhreinir og máttu alls ekki komast í nokkra snertingu við aðra íbúa. Öll snerting þeirra var talin svo smitandi að þeir máttu heldur ekki snerta sömu hlutina og annað fólk. Þess vegna máttu þeir til dæmis ekki ganga berfættir á vegunum eins og aðrir, ekki snerta brúarhandrið, ekki þvo sér á sama stað og aðrir eða skola matarílát.
Á markaðinn máttu þeir einungis koma á mánudögum og þá héldu aðrir sig heima. Á kirkjum í Píreneafjöllum má ennþá sjá sérstakar dyr og brunn með vígðu vatni ætlað Kagótum, sem gátu því aðeins sótt kirkju að þeir notuðu sérstakan inngang og að rimlar skildu á milli þeirra og annarra safnaðarmeðlima.
Þessar dyr eru lágar svo Kagótarnir þurftu að beygja sig niður eins og hæfði stöðu þeirra. Presturinn kastaði til þeirra brauði eins og hunda við altarisgönguna, þótt sumir prestar væru mildari og hefðu sérstaka tréskeið með löngu skafti til að rétta brauðið.
Með fit milli tánna
Kagótar voru auðkenndir með sérstökum fatnaði, hettukufli með mynd af rauðum eða appelsínugulum andarfæti. Þetta táknaði að Kagótar hefðu fit milli tánna. Sú sögusögn spratt af því að þeir voru eina fólkið sem aldrei gekk berfætt. Þá var einnig sagt að Kagótar hefðu enga eyrnasnepla eða misstór eyru, væru heimskir og holdsveikir.
Menn kenndu börnum sínum að forðast og fyrilíta Kagóta og varðveist hefur vísa með ættarnöfnum þeirra svo hægt væri að leggja þau á minnið. Hjónabönd milli Kagóta og annarra voru vitanlega út úr myndinni. Öll brot á þeim ströngu reglum sem giltu um Kagóta þýddu harða refsingu.
Höndin var höggvin af Kagóta einum í upphafi 18. aldar sem sótti vatn í rangan, vígðan brunn á þorpskirkjunni og hún negld á kirkjuhurðina. Glóandi járnstengur voru reknar gegnum fætur Kagóta sem freistaðist til að yrkja jörðina. Stundum voru þeir líka brenndir á báli.
Heimskir, ljótir og eyrnasneplalausir
Hatur á öllu framandi virðist mannfólkinu oft á tíðum eiginlegt og reynslan sýnir að útskúfað fólk í heiminum hefur yfirleitt annan uppruna en aðrir íbúar viðkomandi svæðis. Þannig eru til dæmis Sígaunar (sem reyndar kalla sig sjálfir Róma-fólk) flökkuþjóð frá Norðvestur-Indlandi sem flutti til Evrópu á miðöldum.
Gyðingar komu frá Mið-Austurlöndum. Bæði Sígaunar og Gyðingar eiga sitt eigið tungumál og trúarbrögð, þótt reyndar hafi Sígaunar víða tekið upp tungumál hvers svæðis og trú. En Kagótar áttu ekki eigið tungumál og voru kaþólikkar eins og aðrir í kring. Þá virðast þeir ekki hafa skorið sig mjög úr í útliti þrátt fyrir sögusagnir um slíkt.
Reyndar fer tvennum sögum af litarafti Kagótanna, en menn virðast almennt telja nú til dags að Kagótar hafi líklega verið heldur dekkri yfirlitum en nágrannar þeirra. Einnig voru þeir sagðir kraftalega vaxnir, höfuðstórir og samanreknir. Það gæti nokkuð verið til í þessu með eyrnasneplaleysið, en slíkt er algengt meðal Baska sem einnig búa í Píreneafjöllunum.
Beinagrindur Kagóta hafa verið rannsakaðar og ljóst er að þeir voru ekki holdsveikari en gekk og gerðist, en holdsveiki hefði getað skýrt útskúfunina og óttann við snertingu.
Blettur á fortíðinni
Uppruni Kagóta hefur valdið mönnum heilabrotum og lítið er til af heimildum, ekki síst vegna þess að Kagótarnir sjálfir eyðilögðu skjöl og heimildir til að fela uppruna sinn á síðari tímum.
Upp úr frönsku byltingunni í lok 18. aldar var mismunum Kagóta bönnuð með lögum en nærri 70 árum síðar, þegar Francisque Michel ritaði bókina Histoire Des Races Maudites (Saga bölvuðu kynþáttanna), komst hann að því að þeir u.p.b. 10 þúsund Kagótar sem eftir voru, hlutu alls ekki réttláta meðferð í samfélaginu.
Í dag eru Kagótar aðeins blettur á sögu Frakklands og varla nokkur maður vill kannast við að vera kominn af þeim. Nokkrar áhugaverðar kenningar eru til um hvaðan Kagótarnir komu og hvers vegna þeim var útskúfað í næstum þúsund ár. Ein gerir ráð fyrir að þeir hafi verið afkomendur gotneskra þræla, önnur að þeir hafi verið afkomendur meðlima öflugs trésmiðagildis frá miðöldum sem hafi mátt þola ofsóknir vegna þess þeir nutu velgengni.
Sú sennilegasta verður þó að teljast að Kagótar séu afkomendur márískra (arabískra) hermanna á 8. öld sem komu sunnan að gegnum Spán og settust að í Píreneafjöllum og norður með vegi heilags Jakobs (Jakobsstiganum) sem var fjölfarin pílagrímaleið. Sú kenning skýrir bæði dekkra litaraft og vantraust í garð Kagóta, sem upphaflega hefðu þá verið múslimar.