Dwight Eisenhower var fyrstur sitjandi Bandaríkjaforseta til þess að heimsækja Ísland. Þann 16. júli árið 1955 stoppaði hann stutt í Keflavík á leið sinni til Genfar. Á móti honum tóku Ásgeir Ásgeirsson forseti, Ólafur Thors forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson dómsmálaráðherra og Eysteinn Jónsson fjármálaráðherra. Samkvæmt Morgunblaðinu lét Eisenhower eftirfarandi orð falla:
Ég tel mig hafa verið mjög heppinn að för mín til Evrópu gerði mér kleift að heimsækja Íslendinga, sem hafa nú um langt skeið verið ágæt vinaþjóð okkar Bandaríkjamanna. Það er skemmtilegra veður og bjartara í lofti núna heldur en síðast þegar ég heimsótti ykkur enda var þá miður janúar [Eisenhower hafði áður heimsótt Ísland 1951 sem hershöfðingi í Bandaríkjaher]. Þessi Evrópu-för mín er gerð í leit að friði. Ég vona að okkur sem sitjum Genfar-ráðstefnuna muni takast að styrkja málstað friðarins í þágu allrar veraldar, svo að þjóðir eins og þér Íslendingar, vér Bandaríkjamenn, allar þjóðir Atlantshafsbandalagsins, sem og allar aðrar þjóðir heims geti lifað kyrrlátara lífi í frelsi og í réttlæti. Ég tel það mikilvægt, að mér gefst nú tækifæri, að vísu aðeins í stuttan tíma til að ræða við ykkur Íslendinga um sameiginleg vandamál okkar beggja.
Morgunblaðið, Tíminn og Þjóðviljinn greindu frá heimsókninni. Hér birtast nokkrar myndir úr þessum dagblöðum ásamt forsíðufréttunum sjálfum.