P.P. Arnold er bandarísk söngkona sem hefur átt langan og farsælan feril. Sjálf var hún viss um að lífi sínu væri lokið, þegar hún var ekki einu sinni orðin 19 ára gömul. Röð tilviljana leiddi til þess að hún fékk hjálparhönd úr óvæntri átt, frá sjálfri Tinu Turner.
Arnold, fædd Patricia Ann Cole árið 1946, ólst upp í fátækrahverfum Los Angeles og átti erfiða æsku. Hún eignaðist sitt fyrsta barn aðeins 15 ára að aldri og í kjölfarið sá faðir hennar til þess að hún giftist barnföður sínum, David Arnold. Patricia eignaðist sitt annað barn um það leyti sem hún varð 18 ára um haustið 1964.
Til að sjá fyrir fjölskyldu sinni vann hún myrkranna á milli og sinnti tveimur störfum ásamt móðurhlutverkinu. Hún var búin að leggja æskudrauminn um að verða söngkona á hilluna en einu tækifærin sem hún fékk til að þenja raddböndin voru í kirkjunni á sunnudögum.
Einn sumardag árið 1965 fékk hún óvænt símtal. Fyrrverandi kærasta bróður Patriciu, Maxine Brown að nafni, bað hana um að mæta eins og skot í prufu hjá Ike og Tinu Turner. Hljómsveit Turner hjónanna hafði ætíð á að skipa bakraddasöngkonum sem voru iðulega kallaðar „The Ikettes.“ Þrjú pláss voru laus og ætlaði Maxine að fara með tveimur vinkonum, en ein forfallaðist. Hún hringdi því í Patriciu.
Prufan gekk svo vel að þríeykinu var boðið starfið á staðnum. En Patricia var efins. Hún var smeyk um viðbrögð eiginmanns síns, sem hafði beitt hana ofbeldi frá upphafi sambands þeirra. Tina Turner kannaðist við slíkt samband. Hún bað Patriciu um að koma með á tónleika, fylgjast með Ike & Tina Turner Revue og ákveða sig svo.
Patricia varð heilluð. Hún sá loksins fram á annað líf. Þegar hún kom heim af tónleikunum beið hennar eiginmaðurinn, sem var ekki lengi að „heilsa“ henni með ofbeldi. Patricia flúði á fund Turner, sem sagði henni að ákvörðunin væri augljós. Patricia kom því næst börnum sínum fyrir hjá foreldrum sínum og gekk til liðs við hljómsveit Turner hjónanna.
Næsta árið átti hún eftir að ferðast um Bandaríkin og Evrópu sem hluti Ikettes. Árið 1966 spilaði Ike & Tina Turner Revue á nokkrum tónleikum með The Rolling Stones og þá átti líf Patriciu eftir að taka óvænta beygju enn og aftur. Mick Jagger, söngvari Stones, var að byrja með sitt eigið plötufyrirtæki um þessar mundir, Immediate Records. Hann varð svo heillaður af Patriciu að hann hvatti Andrew Loog Oldham, umboðsmann og upptökustjóra, til að semja við hana sem sóló-listamann.
Hjá Immediate Records fór ferill Patriciu á flug. Hún starfaði talsvert með Steve Marriott úr Small Faces, og áttu þau einnig í ástarsambandi um tíma. Það var síðan um sumarið 1967 sem hún sló í gegn þegar hún flutti lag eftir Cat Stevens, „The First Cut is the Deepest,“ en Stevens átti síðar eftir að hljóðrita lagið sjálfur. Í kjölfarið kom smellurinn „Angel of the Morning“ eftir Chip Taylor, en fjöldi annarra listamanna hafa síðan reynt að gera því lagi jafn góð skil og Patricia.
Hér má heyra hana flytja „The First Cut is the Deepest“ í vestur-þýska sjónvarpsþættinum Beat-Club. Það verður að viðurkennast að þessi útgáfa er hreint út sagt yndisleg!
Það verður seint sagt að P.P. Arnold hafi náð sömu hæðum og bjargvættur hennar, Tina Turner. Engu að síður hefur hún átt farsælan feril og hefur ætíð náð að sjá fyrir sér með tónlist sinni. Það hljóta að teljast talsvert betri örlög en að sitja föst í ofbeldisfullu hjónabandi í South Central hverfi Los Angeles. Því miður tók það Tinu sjálfa talsvert lengri tíma til að brjótast úr viðjum ofbeldisins í sínu eigin hjónabandi. Turner fékk loks lögskilnað frá Ike árið 1975.
P.P. Arnold hefur starfað sem leikkona í hinum ýmsu söngleikjauppfærslum og hefur unnið með mörgum af færustu tónlistarmönnum 20. aldarinnar, bæði á tónleikaferðalögum og í upptökuveri. Hún söng til að mynda bakraddir í lagi Nick Drake „Poor Boy“ og þá hefur hún sungið bakraddir með Pink Floyd meðliðnum Roger Waters á síðustu árum, meðal annars á tónleikum hans á Íslandi.
Hún vann talsvert með Eric Clapton í byrjun 8. áratugar síðustu aldar og það var á tónleikaferðalagi með honum sem hún kynntist Calvin „Fuzzy“ Samuels, bassaleikara Crosby, Stills, Nash & Young. Með Samuels eignaðist hún sitt þriðja barn.
Hér er að lokum hið frábæra lag, „Angel of the Morning.“