Í sjónvarpsþáttunum um Simpsons-fjölskylduna var látið að því liggja að það væri leynifélag Steinhöggvara (Stonecutters) sem héldi aftur framgangi rafmagnsbílsins. Þar var augljóslega verið að vísa til Frímúrarareglunnar, þó hér sé ekkert fullyrt um afstöðu þess félags til rafmagnsbílsins.

 

Í öllu falli er furðulegt að framgangur rafmagnsbílsins hafi ekki verið meiri á 20. öldinni, ef tekið er tillit til þess að það var einmitt rafmagnsbíll sem var fyrstur til að komast á 100 kílómetra hraða á klukkustund.

 

Árið 1899 ók belgíski ökuþórinn Camille Jenatzy bílnum La Jamais Contente (Aldrei ánægð) á 105 kílómetra hraða og setti þar með nýtt hraðamet meðal ökutækja á landi. Metið setti hann í úthverfi Parísar, annað hvort þann 29. apríl eða 1. maí, en heimildum ber ekki saman um rétta dagsetningu.

 

Jenatzy þessi hafði lært rafmagnsverkfræði í skóla og stofnaði flutningafyrirtæki eftir nám. Markmið fyrirtækisins var að geta flutt vörur innan Parísar á rafmagnsknúnum bifreiðum. Til að sýna fram á yfirburði sína gagnvart keppinautum hannaði Jenatzy La Jamais Contente, sem var nokkurn veginn eins og byssukúla í laginu.

Íbúar Parísar fagna hraðameti Jenatzy. Hér ekur hann á La Jamais Contente ásamt eiginkonu sinni, lafði Marie Jeanne Jenatzy.

 

Jenatzy sjálfur var þekktur ofurhugi og ökuþór. Hann var jafnan kallaður „Rauði djöfullinn“ (Le Diable Rouge), vegna þess að þegar hann brunaði framhjá vegfarendum sáu þeir lítið annað en eldrautt skegg Jenatzys þar sem það flaksaði um í vindinum.

 

Annars er saga að segja frá dauðdaga Jenatzy, sem bar að með óvenjulegum hætti 8. desember 1913. Jenatzy, sem var ætíð mikill prakkari inn við beinið, var þá á veiðum með nokkrum vinum sínum. Hann ákvað að hrekkja þá með því að fela sig í runna og gefa frá sér nokkur óhljóð sem líktust hljóðum úr villisvíni.

 

Heppnaðist það ekki betur en svo, að besti vinur Jenatzy, belgíski ritstjórinn Alfred Madoux, skaut með byssu sinni í átt að runnanum og veitti Rauða djöflinum þar með sitt banasár. Minnir óneitanlega á atriði úr bandarísku grínmyndinni Hot Shots, en það er önnur saga.

 

La Jamais Contente gekk fyrir tveimur rafmagnsvélum, hvor um sig með 25 kW hleðslu. Skrokkur bifreiðarinnar var gerður úr málmblöndu sem innihélt ál, magnesíum og volfram. Í dag má sjá La Jamais Contente á bifreiðasafninu í Compiégnes-kastala fyrir utan París.

 

La Jamais Contente í dag, á bifreiðasafninu í Compiégnes.

 

Hér má að lokum heyra í Steinhöggvurunum í The Simpsons, syngja um hvernig þeir hafa haft áhrif á gang sögunnar í nokkuð víðum skilningi.

 

Vídjó