Einn furðulegasti fótboltaleikur sögunnar er vafalaust leikur Chile og Sovétríkjanna í undankeppni fyrir HM 1974 í Vestur-Þýskalandi.
Þjóðirnar tvær börðust um síðasta lausa sætið í lokakeppninni og mættust tvisvar um haustið 1973. Fyrsti leikurinn fór fram í Moskvu þann 26. september og lauk honum með markalausu jafntefli.
Seinni leikurinn hins vegar, sem „fór fram“ þann 21. nóvember, verður lengi í minnum hafður. Hér má sjá allan leikinn, en hann tók aðeins nokkrar sekúndur:
Þarna má sjá leikmenn Chile hefja leikinn á miðju, leika á milli sín upp vallarhelming Sovétmanna og setja boltann síðan í autt markið. Glöggir áhorfendur hafa væntanlega tekið eftir því að eitthvað vantaði, nefnilega leikmenn Sovétríkjanna!
Ástæðuna má rekja til valdaráns Augustos Pinochets hershöfðingja, þann 11. september 1973. Með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar CIA náði Pinochet völdum í Chile, þar sem lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Salvador Allende, var steypt af stóli. Í þann mund sem loftárás var gerð á forsetahöllina í Santiago, flutti Allende dramatískt útvarpsávarp til þjóðar sinnar. Lokaorðin voru: „Lengi lifi Chile! Lengi lifi þjóðin! Lengi lifi verkalýðurinn!“
Í kjölfar valdaránsins tóku við pólitískar ofsóknir Pinochets, þar sem stuðningsmönnum vinstristjórnar Allende var safnað saman – þeir yfirheyrðir, pyntaðir og jafnvel myrtir. Þar gegndi þjóðarleikvangur Chile lykilhlutverki, Estadio Nacional de Chile, sem fékk skyndilega nýtt hlutverk; leikvangurinn var orðinn að fangabúðum.
Alls áttu um 40 þúsund manns eftir að fara á leikvanginn í þessum tilgangi á næstu vikum og mánuðum. Þegar mest var, voru um sjö þúsund pólitískir fangar staddir þar á sama tíma. Karlmenn voru látnir dúsa á vellinum sjálfum, á meðan konum var haldið föngum í búningsklefum og við innisundlaug leikvangsins. Fjölmargir voru skotnir til bana á leikvanginum og enn þann dag í dag má finna þar líkamsleifar andstæðinga Pinochet – þar sem fórnarlömb voru grafin í steypu.
Sovétmenn – sem studdu Allende – vildu skiljanlega ekki spila þennan seinni leik á Estadio Nacional de Chile. Var farið fram á það við Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, að leikurinn yrði spilaður á hlutlausum velli. Þáverandi forseti FIFA, Englendingurinn Stanley Rous, tók það hins vegar ekki í mál. Leikurinn skyldi fara fram.
Sovétmenn brugðu þá á það ráð að mæta ekki í leikinn, í mótmælaskyni. Leikmenn Chile fengu því að hefja leikinn og skora í autt mark Sovétríkjanna. Þar sem enginn Sovétmaður var til að hefja leikinn að nýju eftir markið, var leikurinn flautaður af. Chile tryggði sér þar með farseðilinn til Vestur-Þýskalands, eftir einn umdeildasta „leik“ fótboltasögunnar.