Sumarið 1961 var breska varnarmálaráðherranum, John Profumo, boðið í sundlaugarpartí í Cliveden, höfðingjasetri hinnar auðugu Astor fjölskyldu.

 

Þar kynntist hann ungri konu að nafni Christine Keeler en sundlaugapartí sem þessi voru kjörin staður fyrir breska áhrifamenn til að hitta föngulegar konur.  Fljótlega eftir þessi fyrstu kynni hófu þau Profumo og Keeler ástarsamband sem hvorugt þeirra fór sérstaklega leynt með.

John Profumo (1915-2006)

 

Það sem ráðherrann vissi þó ekki var að ungfrú Keeler hafði einnig átt í sambandi við rússneska njósnarann Yevgeni Ivanov sem þá þóttist starfa fyrir sovéska sendiráðið.

 

Fljótlega fóru upplýsingar að leka til fjölmiðla um samband þeirra Profumo og Keeler en þeir ákváðu þó að birta ekki frétt um það fyrr en um jólin 1962. Ástæðan fyrir þessum sinnaskiptum fjölmiðlanna var að sagan hafði undið allhressilega upp á sig.

 

Þannig var að skömmu fyrir hátíðinar hafði Keeler ákveðið að slíta sambandi sínu við jamaíska eiturlyfjasalan Aloysious „Lucky” Gordon sem brást við með því að ráðast á hana með exi.

 

Keeler náði aftur á móti að koma sér undan og leitaði á náðir fyrrum kærasta síns Johnny Edgecomb. Edgecomb brást skjótt við og réðst á Gordon með hnífi sem hann stakk í andlit hins síðarnefnda. Þegar Edgecomb bað síðan Keeler um að hjálpa sér við að gefa sig fram, brást hún ókvæða við og sagðist ætla að bera vitni gegn honum í málinu.

 

Þegar Keeler mætti ekki svo í réttarhöldin af ótta við hefnd fyrrum kærasta síns ákváðu blöðin að birta fréttina.

 

 

Vídjó

Profumo-hneykslið vakti ekki síður athygli í fyrrum nýlendu Breta, Jamaíku, og nefndi hljómsveitin The Skatalites lag í höfuðið á Christine Keeler.

 

Málið átti eftir að draga dilk á eftir sér. Eftir að það komst upp að Ivanov hafði reynt að nota Keeler til þess að veiða upplýsingar upp úr John Profumo sagði sá síðarnefndi af sér. Málið vakti strax mikla hneykslan og ljóst var að ríkisstjórnin myndi bera afhroð ef hún tæki ekki rétt á málum.

 

Harold McMillan forsætisráðherra ákvað því einnig að segja af sér af heilsufarsástæðum en hvorugar afsagninar gátu þó bjargað breska Íhaldsflokkinum í kosningunum 1963. Stephen Ward, sá sem hélt partíið örlagaríka sumarið 1961, var svo kærður fyrir sölu á vændi en fannst látinn á heimili sínu áður en réttarhöldin fóru fram. Dánarörsökin var of stór skammtur af lyfjum.

 

Vídjó

Keeler varð einnig bresku síð-pönk sveitinni Glaxo Babies að yrkisefni árið 1979.

 

Myndin efst var tekin árið 1963, en hana átti að nota til að kynna kvikmynd um Profumo-hneykslið eins það var kallað. Keeler hafði neitað að sitja nakin fyrir og því var brugðið á það ráð að láta hana sitja á stól þannig að bakið snéri í átt að myndavélinni. Myndin átti síðar stóran þátt í að gera stóla Arne Jacobsen vinsæla um heim allan þó stóllinn sem Keeler sat á hafi í raun verið léleg eftirlíking.

 

Vídjó

Hér sjáum við brot úr kvikmyndinni um Profumo-hneykslið, en eins og sjá má fannst kvikmyndagerðarmönnunum ástæða til að talsetja ungfrú Keeler með rödd annarrar konu.