Það getur verið mögnuð upplifun að borða mat. Ekki bara vegna þess að hann seður hungrið og bragðast vel. Stundum er engu líkara en að við getum bragðað á mannkynssögunni, skynjað menningu fjarlægra landa – bara með því að kjamsa á mat.
Matur hefur til að mynda gert Gaston Pierre de Lévis ódauðlegan. Og hver er það? Ekki nema von að þið spyrjið.
Gaston Pierre de Lévis var fæddur árið 1699 og lést árið 1757. Hann var af aðalsættum, og bar jafnan titilinn hertoginn af Mirepoix. Nú kviknar sjálfsagt ljósið hjá mörgum. Hertoginn af Mirepoix þótti ekkert sérstaklega merkilegur pappír þegar hann var á lífi. Honum hlotnaðist samt sem áður sá heiður að vera skipaður sérstakur sendiherra Loðvíks XV Frakklandskonungs. Hann fékk einnig nafnbótina maréchal de France rétt fyrir dauðadag, sem þykir mikill heiður. Því miður komst hertoginn af Mirepoix aldrei að því sjálfur að ástæðan fyrir þessum stöðuveitingum var sú að Loðvík XV var hrifinn af eiginkonu hertogans. Þetta vissu hins vegar allir aðrir. Á meðan hertoginn var upptekinn að sinna erindum konungs, var konungurinn með eiginkonu hertogans undir sæng.
Í dag er hins vegar fullyrt hér og nú, að nafn Mirepoix er mun meira milli tanna fólks en nafn Loðvíks XV. Þannig var að einkakokkur Mirepoix (auðvitað voru aðalsmenn þeir einu sem höfðu ráð á einkakokkum) var fyrstur til að þróa hina „heilögu þrenningu“ súpugrunna, soðgrunna, sósugrunna… já, hann var fyrstur til að blanda saman lauk, sellerí og gulrótum og sjóða í vatni með salt og pipar. Breytti þessi ónefndi einkakokkur matargerðarlist þannig til frambúðar. Þessi þrenning hefur síðan gengið undir nafninu Mirepoix og tryggt að nafn hertogans mun aldrei falla matreiðslumönnum úr minni. Hitt er annað mál, að enginn man hvað blessaður kokkurinn hét.