Hvað á lagið „Teenage Kicks“ með hljómsveitinni The Undertones sameiginlegt með poppslagaranum „A Good Heart“ með Feargal Sharkey? Við fyrstu sýn er það ekki mikið. „Teenage Kicks“ var tekið upp árið 1978, í hringiðu pönktímabilsins – áhrifavaldar í lagasmíðum eru greinilega hljómsveitir á við The Ramones, The Buzzcocks, já og jafnvel The Sex Pistols. „A Good Heart“ er aftur á móti silkimjúkt popplag, tekið upp á því herrans ári 1985 og hlaut miklar vinsældir. Lagið er enda skapað fyrir að klífa vinsældalista og Feargal Sharkey fékk í kjölfarið á sig stimpilinn „one-hit-wonder“ – hann átti ekki eftir að eiga fleiri lög sem nutu jafn mikilla vinsælda.

 

Þá er einnig rétt að segja frá því, hvers vegna „Teenage Kicks“ hefur hlotið sinn goðsagnakennda blæ. Lagið er líklega þekktast fyrir að hafa verið uppáhaldslag breska útvarpsmannsins John Peel, sem er tónlistarnördum að góðu kunnur. Sagði hann margoft söguna af því þegar hann var að aka í ensku sveitasælunni þegar hann heyrði lagið í fyrsta sinn. Honum þótti lagið svo magnað að hann neyddist til að hemla og leggja bílnum úti í kanti. Hinn óbeislaði kraftur æskunnar og kynferðislegrar útgeislunnar í takt við sakleysið sem einkennir lag og texta, já, allt þetta fangaði Peel og hann sat eftir í bílnum… orðlaus yfir upplifuninni sem hann hafði orðið fyrir.

 

Næst þegar Peel sá um vikulegan útvarpsþátt sinn á BBC Radio One, tók hann upp á því að spila „Teenage Kicks“ tvisvar í röð, eitthvað sem hann hafði aldrei gert til þessa. Hann hafði einnig þann sið að gefa nýjum smáskífum einkunn í stjörnum, þar sem bestu smáskífurnar hlutu fimm stjörnur – einhvern veginn svona: *****. Það er skemmst frá því að segja að Peel gaf „Teenage Kicks“ nákvæmlega **************************, eða 26 stjörnur.

John Peel hvílir í kirkjugarði í Great Finborough í Suffolk, Englandi.

 

 

 

Peel lést árið 2004. Fyrir andlát sitt hafði hann sagt hverjum þeim sem vildi heyra, að hann vildi helst af öllu fá fyrstu línuna úr laginu „Teenage Kicks“ meitlaða á legstein sinn. Árið 2008 sáu ættingjar hans til þess. Á legsteini John Peel stendur „Teenage dreams, so hard to beat.“

 

 

 

En þá færum við okkur að Feargal Sharkey. Sem er það, eða sá, sem lögin eiga sameiginlegt. Feargal Sharkey var nefnilega söngvarinn í norður-írsku hljómsveitinni The Undertones! „A Good Heart“ var tekið upp og gefið út árið 1985 eins og áður sagði og naut mikilla vinsælda, komst til að mynda í efsta sæti breska vinsældalistans. Margir pönkaðdáendur kunna að pirra sig yfir þessu, það er ekki annað að sjá en að Feargal hafi svikið málstaðinn. Boðskapur pönkstefnunnar var að mörgu leyti niðurrif og bylting, að hafna dægurmenningu fjöldans – að vera á móti því sem væri hefðbundið eða vinsælt. Að sama skapi getum við spurt okkur, hvenær er hægt að hafna dægurmenningunni alfarið? Í frægu viðtali Bill Grundy við The Sex Pistols spurði hann hljómsveitina einmitt þeirrar spurningar, hvort það væri ekki furðulegt að hafa þegið 40 þúsund punda plötusamning í ljósi þessarra skoðana. Glen Matlock, bassaleikari sveitarinnar, svaraði: „No, the more the merrier.“ Það ber þó að taka fram að allir þeir sem tóku þátt í því viðtali, og Grundy þar meðtalinn, voru undir mjög miklum áhrifum áfengis.

 

Í öllu falli er „A Good Heart“ hið huggulegasta popplag, með fínum boðskap. Lagið var reyndar samið af bandarísku söngkönunni Mariu McKee, en margir muna eftir geysivinsælu lagi hennar „Show Me Heaven“ sem átti eftir að koma fram í kvikmyndinni Days of Thunder. En það er önnur saga.

 

Af Feargal Sharkey er það annars að frétta að hann er enn í tónlistarbransanum, þrátt fyrir að hafa lagt míkrafóninn á hilluna fyrir löngu síðan. Hann vinnur í dag sem yfirmaður British Music, sem eru helstu hagsmunasamtök plötufyrirtækja í Bretlandi. Hann er iðulega á hvers konar listum yfir valdamesta fólkið í tónlistarbransanum, og kann víst ekki aura sinna tal – þótt fæstir þeirra aura reki uppruna sinn til hagnaðar vegna plötusölu fyrri ára.

 

Hér má síðan heyra þessi frábæru lög.

 

The Undertones – Teenage Kicks

 

Vídjó

 

Feargal Sharkey – A Good Heart

Takið eftir hvað Feargal er líkur Kyle MacLachlan!

 


Vídjó