Árið 1995 varð undarlegur atburður í Vestmannaeyjum, þegar hópur ungmenna fylltist kristnum trúarofsa og tók sig til og brenndi bækur og geisladiska sem þóttu óæskilegir. Djöfulleg tónlist bandarísku rokksveitarinnar Kiss var meðal þess sem brann á báli Eyjamanna. Lítum á frétt Morgunblaðsins um bókabrennuna, 9. nóvember 1995:

 

 

 

Tuttugu ungmenni hafa með niðurdýfingu gengið í Hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum frá því um áramót. Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir, staðfestir að ungmenni í söfnuðinum hafi brennt bækur og geisladiska með „ókristilegum“ textum. Hann segir að ungmennin hafi ýmist brennt eigur sínar í einrómi eða tekið sig saman.

 

Fimm til sex hundruð geisladiskar að verðmæti allt að einni milljón króna voru brenndir í einni slíkri brennu á gömlu sorphaugunum í Vestmannaeyjum í sumar. Fleiri slíkar brennur hafa verið haldnar í Vestmannaeyjum í ár. Ólafur Hreinn Sigurjónsson, skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, segist vera hræddur við hvers konar múgæsingu og ofstæki.

 

Snorri sagði að yfir 20% fjölgun eða frá 90 í 110 hefði verið í söfnuðinum frá því um áramót. Skýringin væri einföld. „Andi guðs snertir við fólkinu. Við vöknum til meðvitundar um að við eigum lifandi trú og Jesú Kristur sé frelsari okkar. Ekki er hægt að segja að hingað sæki einn hópur í þjóðfélaginu fremur en annar. Allir upplifa hins vegar drottinn og frelsiskraft hans. Hugarfarsbreyting verður og áhuginn á Biblíunni vaknar. Biblían færir heim myndugleika, valdið, og endurhæfing hefst,“ sagði Snorri.

 

„Eins og sjá má logaði eldurinn glatt.“

Mikið af djöfla og dauðarokki

 

Hann sagði að unga fólkið hefði hlustað á ýmis konar veraldlega tónlist. „Mikið var af djöfla- og dauðarokki og margir textar hvöttu til siðleysis, s.s. kynvillu og tvíkynja samskipta. Þegar unglingarnir áttuðu sig á því að textarnir væru í algjörri andstöðu við Biblíunna gátu þeir ekki lengur notið tónlistarinnar. Þeir fengu svo hugmyndina að því að brenna diskana eftir að hafa lesið í Postulasögu 19 að söfnuðurinn hefði brennt kuklbækur. Brenndar voru bækur á borð við Mein Kampf eftir Hitler, sem elur á kynþáttafordómum, og þvílíku og geisladiskar með hljómsveitum eins og Kiss og margir fleiri,“ sagði Snorri.

 

Snorri sagði að unglingarnir hefðu ekki verið lattir til að gera hugmyndina að veruleika eftir að hún kom fram. Hins vegar tók hann fram að Hvítasunnukirkjan væri alls ekki að setja sig á móti allri tónlist eða bókum sem tilheyrði tilteknu lífsmynstri. Aðeins ef textar boðuðu lögleysu, brytu gegn boðorðunum tíu, Biblíunni eða kristnu siðferði almennt.

 

 

Hræddur við múgæsingu og ofstæki

 

Ólafur Hreinn sagði að áhuginn á Betelsöfnuðinum hefði ekki farið fram hjá sér. Meiri áhugi virtist vera meðal eldri nemenda, átján til rúmlega tvítugs, en yngri á starfi safnaðarins og einhver hópur nemenda í skólanum og annara ungmenna hefði gengið til liðs við hann á síðustu misserum. Ólafur Hreinn sagðist hafa trú á því að orskanna á miklum áhuga á söfnuðinum mætti leita út í þjóðfélaginu eins og yfirleitt þegar tískusveiflur yrðu meðal ungs fólks. Unga fólkið hefði mjög mikil áhrif hvert á annað og boltinn væri fljótur að bæta utan á sig.

 

Hann sagði að auðvitað yrði hver og einn að gera upp við sig hvað honum væri fyrir bestu. Hins vegar væri hann sjálfur hræddur við hvers konar múgæsingu og ofstæki. „Mér finnst líka að fólk sem gefur sig út fyrir að vera fremst í flokki varðandi kristni megi ekki gleyma því meginstefi kristninnar að umburðarlyndi og réttsýni ráði ferðinni,“ sagði Ólafur Hreinn og tók fram að skólamenn hlytu ætíð að vera gagnrýnir á bækur og aðrir slíkir miðlar væru brenndir.

 

Morgunblaðið, 9. nóvember 1995.