Breski tónlistarmaðurinn Steven Patrick Morrissey er einstakur. Um það er vart hægt að deila. Hann er einn fárra listamanna sem hafa hlotið aðdáun sem líkist helst trúarbrögðum. Þar með er ekki sagt að hann sé einn vinsælasti tónlistarmaður poppsögunnar, því fer fjarri. En þeir sem hafa gerst svo heppnir að dáleiðast af töfrum Morrissey, þeir sem aðhyllast þessi trúarbrögð, eru líklega tryggustu aðdáendur sem fyrirfinnast. Nema kannski ef Elvis-eftirhermur eru teknar með. Og þó.

 

Það sem hefur ekki síst verið einkenni Morrissey, og það allt síðan hann sló í gegn með hljómsveitinni The Smiths á 9. áratug síðustu aldar, er hversu leyndardómsfullur hann er. Fáir, ef nokkrir, virðast þekkja hann. Meira að segja nánir vinir hans segjast ekki þekkja hann!

 

Það var því mikið fagnaðarefni árið 2002 þegar Morrissey samþykkti, öllum að óvörum, að gerð yrði heimildarmyndin The Importance of Being Morrissey. Glöggir aðdáendur átta sig ef til vill á orðaleiknum þar sem vitnað er til leikrits Oscars Wilde … en það þurfti auðvitað ekkert að segja neinum það. Í myndinni má sjá viðtöl við Morrissey sjálfan, auk þess sem fjölmargir samferðamenn og aðdáendur tjá sig um hinn leyndardómsfulla mann. Þar á meðal eru rithöfundarnir JK Rowling og Will Self, tónlistarmennirnir Noel Gallagher og Bono, auk annarra vina og ættingja. Það er sveitungi Morrissey frá Manchester, leikarinn Christopher Eccleston, sem er sögumaður. Myndina er hægt að sjá hér.

 

 

Vídjó