Hér sést nýlátinn einn valdamesti maður Þýskalands á tímum Þriðja ríkisins.  Heinrich Luitpold Himmler var yfirmaður þýsku lögreglunnar, SS-sveitanna og Gestapó leyniþjónustunnar á árunum 1933-1945.  Hann var einn af forsprökkum ,,endanlegu lausnarinnar“ og spilaði lykilhlutverk í kerfisbundinni tortímingu milljóna gyðinga, Róma-fólks, Pólverja, Rússa og annara hópa á tímum síðari heimsstyrjaldar.

 

Hitler treysti Himmler og talaði um hann sem ,,der treue Heinrich“.  Á síðustu mánuðum stríðsins reyndi ,,hinn tryggi Heinrich“ aftur á móti að semja frið við Breta og Bandaríkjamenn að Hitler óspurðum.  Hitler tók æðiskast þegar hann frétti af þessu og fyrirskipaði að hann skyldi handtekinn.  Fyrirlitinn af nasistum og eftirsóttur af bandamönnum fór Himmler í felur og ferðaðist í dulargervi um Þýskaland undir nafninu Heinrich Hitzinger.

 

Þann 21. maí árið 1945 var Himmler handtekinn af breskum hermönnum sem könnuðust við hann og fluttur til yfirheyrslu í Lüneburg, þar sem hann gaf upp hver hann var.  Í kjölfarið var hann settur í sérstakan klefa og síðan sendur í læknisskoðun, þar sem hann var beðinn um að opna munninn.  Himmler streittist við, færði höfuðið undan og beit í blásýruhylki sem hann hafði geymt í munninum.  Dauði hans var hægfara og kvalarfullur — hann lést um það bil fimmtán mínútum eftir að hafa tekið eitrið.  Ljósmyndin að ofan var tekin skömmu eftir andlátið.  Hann var síðan jarðsettur í ómerktri gröf á óþekktum stað nálægt Lüneburg.