Um þessar mundir eru fimmtíu ár liðin frá því að David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels, kom í opinbera heimsókn til Íslands, 12.-16. september 1962. Heimsókn ísraelska landsföðurins vakti mikla athygli á Íslandi og nákvæmar fréttir af ferðum hans og Ólafs Thors, forsætisráðherra Íslands, prýddu forsíður allra dagblaða á meðan heimsókn hans stóð. Enda svosem ekki á hverjum degi sem svo merkur maður heimsækir Ísland.

 

Ben-Gurion var þá á ferð um Norðurlöndin og nýkominn frá Danmörku. Hann var 76 ára gamall og sat sitt næstsíðasta ár í embætti forsætisráðherra.

 

Myndin hér að ofan er tekin í Valhöll á Þingvöllum þar sem forsætisráðherrarnir og föruneyti þeirra snæddu hádegisverð 14. september. Ben-Gurion gluggar þarna í Morgunblaðið, þar sem hann sjálfur er einmitt á forsíðunni. Svo ítarlegur var fréttaflutningur af þessu sögulega hádegisverðarborði að við vitum nákvæmlega hvað og hversu mikið Ben-Gurion borðaði. Mynd dagblað, 15. september:

 

 

„Næzt kom íslenzka lambakjötið og Ben-Gurion fékk sér lítinn bita, eina sneið af tómat og örlítinn bút af gulrót, en snerti ekki kartöflur eða allt hitt grænmetið á fatinu. Ólafur greip hvítvínsglasið, Carmel Hoch […] Tómatsneiðin lá eftir á diski Ben-Gurions og nú var komið í rauðvínið …“


 

 

En blaðamennirnir fylgdust auðvitað einnig grannt með því hvað fór á milli forsætisráðherranna við hádegisverðarborðið. Ben-Gurion og Ólafur ræddu meðal annars stjórnmálaumhverfið í löndum sínum. Úr umfjöllun Morgunblaðsins, 15. september:

 

 

Þá sagði Ólafur Thors. — „Stjórnarandstaðan hérna er verri en í Ísrael. Hún er verri en Arabar“.

 

En Ben-Gurion fórnaði höndum, hló og sagði, „herra forsætisráðherra, ég skal með glöðu geði skipta við yður á Aröbum og íslenzku stjórnarandstöðunni.“

 

Allir viðstaddir höfðu hina mestu skemmtun af þessum orðahnippingum forsætisráðherranna, ekki sízt þeir sjálfir. Þeir hlógu og skemmtu sér án tillits til þess sem í venjulegu tali er kallað diplomatí.

 

 

Einstaklega vel virðist hafa farið á forsætisráðherrum „tveggja mestu sagnaþjóða veraldar“ — eins og Vísir orðaði það svo hátíðlega í umfjöllun sinni um heimsóknina, 15. september. Þeir hafi reytt af sér brandarana, en Morgunblaðið varðveitti annað dæmi um ódauðlegan húmor þeirra kolleganna:

 

 

Báðir voru þeir Ólafur og BenGurion með skemmtilega lifandi hár og það var tilefni gamanmála milli þeirra. Sagt er að Ben-Gurion hafi eitt sinn sagt við Ólaf og bent á hár hans: „You have a very lively hair, mr. Thors.“ „Yes,“ svaraði Ólafur um hæl og bætti síðan við: „It’s the most independent hair in lceland!“

 

 

Sigurður Nordal segir Ben-Gurion frá því sem fyrir augu ber á Þingvöllum.

 

 

Að lokum var farið til Hveragerðis og Ben-Gurion sýnd borhola í Ölfusdal. Borholan varð einnig tilefni gamansemi, að sjálfsögðu. Morgunblaðið:

 

 

Þegar lokað hafði verið fyrir gufuna sneri Ben-Gurion sér að Ólafi Thors og sagði, „Ég mundi vilja fara með þetta heim með mér.“ Ólafur Thors sagði „Ef þér treystið yður til að taka þessa orku með yður heim, tek ég mér bessaleyfi og lýsi því yfir, að yður er það heimilt.“ Ben-Gurion brosti og svaraði „Ef ég gæti farið með þessa orku heim mundi ég ekki skila henni aftur“. Siðan horfði hann enn um stund á gufustrókinn, sneri sér aftur að Ólafi Thors og mælti „Nú hafið þér loksins sigrað mig. Ég gefst upp“.

 

 

Sveinn Einarsson verkfræðingur sýnir Ben-Gurion borholu.

 

 

Í þakkarskyni fyrir vel heppnaða heimsókn bauð Ben-Gurion Ólafi Thors í heimsókn til Ísraels. Ólafur fékk ekki tækifæri til þess að þiggja boðið en eftirmaður hans, Bjarni Benediktsson, gerði það og fór til Ísraels árið 1964. Um þá heimsókn, sem og Ísraelsferð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta árið 1966, má einnig lesa á Lemúrnum.

 

 

Ben-Gurion flytur ávarp við komuna til Íslands.

 

Fundað í ráðherrabústaðnum.

 

Ráðherrafrúrnar Paula Ben-Gurion og Ingibjörg Indriðadóttir.