Þáttur úlfalda í Íslandssögunni er vafalaust mjög lítill, enda veit Lemúrinn ekki til þess að nokkur úlfaldi hafi búið hér á landi. Hinsvegar hafa að minnsta kosti tveir af æðstu ráðamönnum Íslands stigið á bak úlfalda.

 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór í opinbera heimsókn til Ísraels í nóvember árið 1964. Bjarni ferðaðist um Ísraelsríki endilangt og kom meðal annars til borgarinnar Beer Sheva suður í Negev-eyðimörkinni. Á bedúínamarkaði þar í borg fór forsætisráðherrann á bak úlfalda:

 

 

Tveimur árum síðar, í mars 1966, var röðin komin að Ásgeiri Ásgeirssyni forseta að heimsækja Ísrael. Líkt og Bjarni kom Ásgeir við í Beer Sheva, þar sem hann brá sér einnig á úlfaldabak. Þessar myndir eru teknar í garði hótelsins Desert Inn þar sem forsetinn dvaldi:

 

Myndirnar tók Moshe Pridan og þær eru birtar með góðfúslegu leyfi Ljósmyndasafns Ísraelsríkis.