Fimmta ágúst 1936 birtist umfjöllun um Ólympíuleikana í Berlín í Morgunblaðinu. Myndin að ofan sýnir íslenska hópinn ganga inn á Ólympíuleikvanginn á setningarathöfninni. Hún er úr opinberri skýrslu Alþjóðaólympíunefndarinnar um leikana 1936.

 

„Í dag er fimti dagur Olympíuleikanna. Ítarlegar fregnir hafa ekki borist af leikunum, þar eð það er ofviða íslenskum blöðum að kaupa skeyti, er segja frá úrslitum í öllum greinum íþróttanna.

 

Frjettastofa útvarpsins, sem ein hefir aðstöðu til þess að gefa Íslendingum kost á að fylgjast með því, sem er að gerast á þessu merkilegast á alþjóðamóti íþróttamanna, hefir ekki sjeð ástæðu til að nota þessa aðstöðu.

 

Mun öllum kunnugt, að ástæðan til þessa sje, að Olympíuleikarnir eru haldnir í Þýskalandi, en það land er ekki hjartfólgið Sigurði Einarssyni, ómerkilegum manni. En syndir hans við útvarpið eru svo margar, að engin ástæða er til að verða uppnæmur, þó að þessi bætist við.

 

Frjettaritari Morgunblaðsins í Kaupmannahöfn símar, að fyrsta daginn, er íþróttasveitir 53 þjóða gengu fylktu liði inn á íþróttavöllinn, hafi sveit Íslendinganna 20, sem gengu undir íslenska fánanum, verið sjerstaklega vel tekið, en best hafi Frökkum og Austurríkismönnum verið tekið. Margar sveitirnar, þ. á. m. Íslendingar, Frakkar og Austurríkismenn heilsuðu með nasistakveðju, og vakti það mikinn fögnuð.

 

Í 100 m, hlaupi hljóp Íslendingurinn Sveinn Ingvarsson sprettinn á 11.0 sek. Er það jafn góður tími og Íslandsmetið (Garðars S. Gíslasonar) og hefir Sveinn aldrei fyr náð jafngóðum tíma.

 

Varð hann 5. maður af 6 í undanrás, en komst ekki í úrslit, enda var ekki við því búist.

 

Fyrstur í 100 metra hlaupinu var negrinn Owens (Bandaríkjam.); hann hljóp á 10.3 sek. í úrslitahlaupinu. En í undanrásinni hljóp hann á 10.2 sek., og er það nýtt heimsmet. Annar maður var negrinn Metcalfe.“

 

Vídjó

Opnunarhátíðin 1936.

 

„Öllum þjóðum var fagnað á þennan hátt“ (Skýrsla Alþjóðaólympíunefndarinnar)

 

Hitler mætir á svæðið. (Skýrsla Alþjóðaólympíunefndarinnar)