Í Þjóðskjalasafni Hollands er safn gamalla mynda af einum fátækasta þjóðfélagshóps landsins, Róma-fólks eða sígauna. Myndirnar sýna hestvagna- og hjólhýsabyggðir í útjaðri bæja á Hollandi og grannlandinu Belgíu, og fólkið sem þar háði sína lífsbaráttu við þröngan kost.
Elstu myndirnar eru teknar um 1930 og þær yngstu á sjöunda áratugnum. Heimsstyrjöldin síðari kom á milli. Þá tókst nasistum og bandamönnum þeirra að útrýma nær öllu Róma-fólki í Hollandi líkt og öðrum löndum Evrópu. Þau voru jafn óæskileg og Gyðingar og hundruð Róma-fólks voru send í útrýmingarbúðir, þar á meðal Auschwitz.
Eins og sjá má á nýjustu myndunum hér, þar sem nýstárleg hjólhýsi hafa tekið við af hestvögnum úr tré, tókst þó ekki að gera algjörlega út af við hollenskt Róma-fólk. (Nationaal Archief.)