Margir kannast við réttinn „Eggs Benedict“ þó hann sé vissulega ekki algengur á Íslandi. Er hann snæddur sem morgunverður en satt best að segja er erfitt að ímynda sér ríkulegri leið til að hefja daginn en að gæða sér einmitt á Eggs Benedict. Í stuttu máli þá samanstendur rétturinn af smjörsteiktu brauði, beikonsneið, hleyptu eggi og síðan er hellt yfir vænum skammti af hollandaise-sósu. Með öðrum orðum; draumur í dós!

 

Eggs Benedict.

 

En viti menn! Frakkar geta að sjálfsögðu toppað Benediktareggin í óhóflegum unaðsemdum matargerðarlistarinnar. Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá hvernig Michel Roux yngri, matreiðslumeistari á hinum heimsfræga veitingastað Le Gavroche í Lundúnum, framreiðir réttinn Œuf poché meurette, hleypt egg í rauðvínssósu.

 

Þennan rétt hefur Michel Roux framreitt reglulega síðan árið 1982 þegar hann vann sem kokkur í Elysée-forsetahöllinni í París. Hleypt egg í rauðvínssósu var einn af eftirlætisréttum François Mitterand, forseta Frakklands frá 1981 til 1995. Segja má að hann sé enn ríkulegri en Benediktaregg en í hann fer meðal annars heil rauðvínsflaska, smjörsteikt brioche, egg (að sjálfsögðu) og sneið af þykku beikoni. En það er eins gott að láta myndskeiðið tala sínu máli. Það er í raun fengið úr þáttunum Masterchef UK: The Professionals sem eru í miklu uppáhaldi hjá Mahlzeit þessa dagana. Aðaldómari þáttaraðarinnar er einmitt Roux, sem er ekki aðeins frábær matreiðslumeistari – hann er bara svo rosalega sjarmerandi líka. Þættina má sjá á myndbandavefnum youtube.

 

Vídjó