Tveir réttrúnaðarrabbínar á göngu við Grátmúrinn í Jerúsalem, árið 1935.

 

Grátmúrinn eða Vesturveggurinn stendur við rætur Musterishæðar og er einn heilagasti staður í Gyðingdómi. Múrinn var byggður í kringum árið 20. fyrir Krist sem hluti af viðgerð og endurnýjun Heródusar konungs á musterinu í Jerúsalem. Musterið var jafnað við jörðu árið 70 e.Kr. og er grátmúrinn eitt af fáum ummerkjum um musterið sem enn standa.

 

Eftir sjálfsstæðistríð Ísraels árið 1948 féll Musterishæð í hendur Jórdaníu og Gyðingum stranglega bannaður aðgangur að múrnum. Tveimur áratugum síðar lagði Ísrael múrinn undir sig, í sex daga stríðinu 1967. Ljósmynd David Rubingers af fallhlífahermönnum, hrærðum yfir að fá að nálgast múrinn, er ein frægasta fréttamyndin í sögu Ísraelsríkis:

 

 

Ljósmyndarinn Rubinger var sjálfur ósáttur við frægð myndarinnar og fannst hún vond. Hann var hrifnari af mynd sem hann tók um tuttugu mínútum síðar og sýnir hinn herskáa aðalrabbína ísraelska hersins, Shlomo Goren, leiða fyrstu bænagjörðir við Grátmúrinn í tuttugu ár:

 

 

Goren rabbína dreymdi um að Klettamoskan og aðrar byggingar múslima á Musterishæð yrðu sprengdar í loft upp svo að hægt væri að reisa þar nýtt musteri, en honum varð ekki að ósk sinni. Hinsvegar var hið aldagamla marokkóska hverfi í nágrenni Grátmúrsins jafnað við jörðu örfáum dögum eftir Musterishæðin féll í hendur Ísraela, til þess nóg pláss væri fyrir hina trúuðu.

 

Vesturveggurinn er í dag einnig umdeildur meðal Gyðinga. Strangtrúaðir eru valdamiklir í Jerúsalem og segja sumir að ‘últra-orþódox’ Haredi-Gyðingar hafi „tekið yfir“ vegginn. Hinir strangtrúuðu vilja setja konum sem biðja við Grátmúrinn mjög þröngar skorður, og jafnvel banna þær alveg frá nágrenni múrsins. Konur hafa verið handteknar við múrinn fyrir að biðjast fyrir með bænasjal og Torah-rúllu, sem hinum strangtrúuðu þótti vera móðgun.

 

 

Marokkóska hverfið í Jerúsalem við Grátmúrinn í byrjun 20. aldar.

 

Torgið við Vesturveggurinn, í byrjun 21. aldar.