Sú var tíðin að Írönum var ekki hótað öllu illu fyrir afskipti sín af kjarnorku, heldur var æðsti maður íranska ríkisins auglýsingafyrirsæta fyrir bandarísk kjarnorkufyrirtæki.

 

Þetta er konungur Írans, Mohammed Reza Pahlavi, sem hér er prúðbúinn í auglýsingu fyrir orkufyrirtæki á Nýja-Englandi, sem birtist í þarlendum fjölmiðlum á áttunda áratugnum.

 

Markmið auglýsingarinnar var að sannfæra bandaríska neytendur um ágæti kjarnorkuvera. Þar segir að þó að konungurinn sitji á einum stærsta olíuauð heimsins viti hann að olían endist ekki að eilífu. Þess vegna sé hann á fullu að byggja kjarnorkuver, enda séu þau algjörlega hættulaus. „Kjarnorka. Svar framtíðarinnar.“