Um hádegisbil þann 13. ágúst árið 2000 urðu tvær öflugar sprengingar um borð í rússneska kjarnorkukafbátinum Kúrsk. Kafbáturinn var þá staddur á hundrað metra dýpi neðansjávar í Barentshafi. Um borð var 118 manna áhöfn.

 

Noregur og Bretland buðust til þess að senda út björgunarleiðangra í kafbátinn. Yfirvöld í Moskvu þáðu ekki þá hjálp og sögðu engar líkur hefðu verið á að nokkur hefði lifað sprengingarnar af.

 

Þetta var afsannað tveimur vikum síðar, þegar rússneskir kafarar voru loksins sendir út að ná í lík sjómannanna úr flaki kafbátsins. Í brjóstvasa lautinant-kapteins Dmitrí Kolesnikov fundu þeir bréf. Bréfið sýndi svart á hvítu að minnsta kosti 23 áhafnarmeðlimir lifðu sprengingarnar af og tórðu um borð í vélarvana kafbátnum í að minnsta kosti fjóra klukkutíma. Líf þeirra hafi svo fjarað út smátt og smátt, úr kulda eða ofþrýstingi, á meðan stjórnmálamenn körpuðu upp á yfirborðinu.

 

„13:15. Öll áhöfn úr sjötta, sjöunda og áttunda hólfi fór yfir í níunda hólf. Við erum 23. Við tókum þessa ákvörðun vegna slyssins. Enginn okkar mun komast upp á yfirborðið.“

 

Tveimur tímum síðar var skrift Kolesnikov orðin illæsileg. Neyðarrafmagn kafbátsins var á þrotum:

 

„15:15. Hér er of dimmt til að skrifa en ég reyni blindandi.  Virðist ekki vera miklir möguleikar, 10-20%. Við vonum að einhver lesi þetta. Hér er listi yfir sjómennina í níunda hólfi sem reyna að komast út. Ég bið að heilsa öllum, það er engin þörf á að örvænta.“

 

Aðeins hluti bréfsins var gerður opinber. Í vasa hans var einnig að finna persónulegt bréf til eiginkonu hans, og ef til vill eitthvað fleira. Kolesnikov var 27 ára gamall.

 

Dmitrí Kolesnikov.

 

Móðir Kolesnikovs og ekkja hans, Olga.