Vídjó

 

Á síðasta áratug nítjándu aldar fann uppfinningamaðurinn knái Thomas Edison upp frumstæða kvikmyndavél sem hann kallaði Kinetograph, og tilheyrandi sýningartæki, Kinetoscope. Edison virðist ekki hafa hugsað kvikmyndaáhorf sem þá félagslegu iðju sem það er í dag: áhorfið fór þannig fram að maður beygði sig yfir sýningartækið og horfði í gegnum lítið op á filmuna rúlla.

 

Herramaður nokkur horfir á Kinetoscope-mynd í ró og næði.

 

Edison tók sjálfur upp fjöldann allan af stuttmyndum og myndskeiðum til þess að prófa tækni sína og vekja athygli almennings. Hér að ofan má sjá eina af af frægustu kínetóskóp-myndunum — Hnerri Fred Otts frá 1894. Myndin er fimm sekúndur að lengd og sýnir aðstoðarmann Edisons taka hressilega í nefið og hnerra svo. Þetta er jafnframt fyrsta kvikmynd sem sett var í höfundarrétt í Bandaríkjunum — hnerrinn var upphafið að Hollywood, má ef til vill segja.

 

Hnerri Fred Otts sýnir kínetóskóp-tæknina á algjöru frumstigi. Næsta áratuginn hélt Edison áfram að þróa uppfinningu sína, þó fljótlega yrði ljóst að hún myndi lúta í lægra haldi fyrir öðrum, eins og hinum frönsku Lumière-bræðrum sem þegar voru farnir að ferðast um heiminn með kvikmyndavél sína. Þessa stutta myndskeið framleiddi Edison árið 1901. Það sýnir tvær systur, Bessie og Minnie Gordon, keppa í hnefaleikum klæddar í fínustu blúndukjóla. Systur þessar ku hafa verið vinsælir skemmtikraftar í burlesque-leikhúsum á skemmtanaparadísinni Coney Island í New York.

 

Vídjó