Faðir Margrétar Danadrottningar, Friðrik IX, var alskreyttur húðflúrum. Friðrik IX ríkti yfir Danaveldi frá andláti Kristjáns X árið 1947 og fram til 1972. Áður en hann varð konungur var hann hinsvegar sjóari mikill og aðmírall í danska sjóhernum. Það var á sjónum sem hann safnaði sér öllum þeim tattúum sem síðan prýddu líkama hans.
Eins og sjá má þessu myndbandsbroti skammaðist konungurinn sín alls ekki fyrir húðflúrin, heldur fær sér morgunkaffið ber að ofan og horfir svo stoltur yfir ríkidæmi sitt.
Austurlenska drekann á handleggnum fékk konungurinn tilvonandi sér í London, á frægri húðflúrstofu George nokkurs Burchetts. Sá hafði fjölmarga konunglega kúnna — meðal annars Alfons XIII Spánarkonung og George V Englandskonung. Hann tattúeraði einnig snák á handlegg móður Winstons Churchills, lafði Randolph Churchill. Hún átti svo sérstakt demantsarmband sem hún notaði til að fela snákinn þegar svo bar undir.