Málverk Michaelangelo, Botticello og félaga á veggjum Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu eru með frægustu listaverkum sögunnar. Fyrir þá sem ekki hafa ráð á að bregða sér til Rómar til þess að berja þessa dýrð augum hefur Vatíkanið látið búa til risastóra 360-gráðu panóramamynd af kapellunni — mannlausri — þar sem hægt er að grandskoða hverja flís og hverja pensilstroku meistaranna. Skoðið panórömuna hér.
Lemúrnum til nokkurrar undrunar heldur Vatíkanið út öflugri heimasíðu. Þar má einnig fara í sýndarheimsókn um söfn Vatíkansins, þar sem marga dýrgripi er að finna; og horfa á hina æsispennandi sjónvarpsstöð Vatíkansins. Og svo að sjálfsögðu fylgjast með því sem Benedikt XVI páfi tekur sér fyrir sínar heilögu hendur.
Kollegi hans Júlíus II, sem fyrir fimm öldum fyrirskipaði dýrðlegustu málverk Sixtínsku kapellurnar getur varla talist hafa haft til að bera kristilegt hjartalag. Hann var raunar svo ókristilegur að hann var kallaður „páfinn hræðilegi“ eða „stríðspáfinn“, enda stóð hann sífellt í veraldlegum stórræðum og tefldi fram grimmum málaliðaherjum hvenær sem bölbænir og bannfæringar dugðu ekki til að aðrir valdamenn á Ítalíu og víðar gerðu vilja hans.
Júlíus þessi var metnaðargjarn með afbrigðum og taldi meðal annars að glæsileg listaverk væru kjörin til að halda nafni hans á lofti. Því réði hann sjálfan Michelangelo til að mála ný málverk í loft kapellunnar. Það tók Michaelangelo fjögur ár að klára verkið. Málverk hans þekja eina 460 fermetra.
Það tók ekki aðeins langan tíma að mála myndirnar, heldur fór það líka illa með heilsu Michelangelos. Hann þurfti að liggja langtímum saman á bakinu í óþægilegri stellingu við störf sín, og það var hægar sagt en gert. Sjálfur var hann spurður um þetta, og var ekkert að fara of fínt í hlutina: „Nelle mie opere caco sangue.“ Þetta þýddi: „Í minni vinnu skít ég blóði.“
Kapellan var opnuð formlega 31. október 1512 þegar Júlíus II söng messu þar inni í fyrsta sinn. En mörgu var þó enn ólokið, og þegar Júlíus II dó snemma næsta árs lagði Michelangelo pensilinn á hilluna í tuttugu ár. Hann sneri þó til baka 1534 að beiðni þáverandi páfa, Páls III, og skóp þá verkið „Hinsti dómur“.