Í borginni Taichung í Taívan er lítið hverfi þar sem búa nær eingöngu aldraðir fyrrum hermenn og fjölskyldur þeirra. Hverfið var byggt fyrir hermenn Kuomintang sem flúðu til Taívans eftir endanlegan ósigur í kínverska borgarastríðinu árið 1950.

 

Síðan hefur verið lítið hirt um hverfið. Það var þá í útjaðri borgarinnar, borgin óx og umkringdi hermannahverfið. Fyrir nokkrum árum ákváðu borgaryfirvöld að rífa ósjálegt hverfið til þess að byggja þar iðnaðarhúsnæði.

 

Það var um það leiti sem Huang Yunfu byrjaði að mála. Þessi 86 ára gamli hermaður hafði hvorki málað né teiknað síðan á myndlistarnámskeiði í barnæsku. En hann átti enn nokkra pensla síðan þá, og hann byrjaði að mála litríkar fígúrur, dýr og munstur á veggi hússins síns.

 

 

Þegar húsið var orðið þakið listaverkum málaði hann á hús nágrannans, á vegina og alla þá fleti sem hann komst í. Rúmum tveimur árum síðar er varla ein arða í hverfinu sem ekki er skreytt málverkum hans.

 

Hermannahverfið er nú kallað „Regnbogaþorpið“ og er eitt helsta aðdráttarafl Taichung-borgar. Ákvörðunin um niðurrif þess hefur verið dregin til baka.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Huang Yunfu.

 

Myndirnar tók Steven Barringer.