Það þarf varla að undra að í landi með eins róstusama og blóðuga sögu og Afganistan setji stríðsrekstur mark sitt á menningu innfæddra. Eftir að Sovétríkin gerðu innrás í Afganistan árið 1979 byrjuðu afganskar konur að vefa teppi sem sýndu nýjan veruleika þeirra og þjóðarinnar allra. Friðsælar myndir af trjám og dýrum viku fyrir skriðdrekum, handsprengjum og kalasníkoff-rifflum.

 

Á fyrstu ‘stríðsteppunum‘ svokölluðu voru vopnamyndir samtvinnaðar hefðbundnum mynstrum á óljósan hátt. Líkt og þetta teppi — einungis þegar það er skoðað nákvæmlega kemur í ljós að innan um blómin og trén í miðju teppisins eru þyrlur og orrustuflaugar.

 

 

 

En stríðsteppin slógu í gegn hjá stríðshrjáðri þjóð og urðu með tímanum æ djarfari og stríðstólin greinilegri. Það velkist enginn í vafa um hvað sé á ferð á þessu teppi:

 

 

 

Teppin eru líka notuð til þess að segja sögur stríðanna sem geysað hafa í Afganistan. Þetta teppi sýnir stríð Vesturlanda gegn hryðjuverkjum og árásirnar í Afganistan og Írak:

 

 

Og hryðjuverkin í Bandaríkjunum sem leiddu til stríðsins:

 

 

Þetta teppi sýnir rauða hönd Sovétríkjanna stjórna Mohammad Najibullah, forsætisráðherra leppstjórnar þeirra í Afganistan í lok níunda áratugar:

 

 

 

Nýtískuleg vopn og stríðstól sem Bandaríkjamenn fluttu til landsins:

 

 

 

Þetta portrett af Hamid Karzai myndi nú fara vel í stofunni:

 

 

Á vefsíðunni WarRug.com er hægt að kaupa stríðsteppi eftir afganska listamenn.