Brasilíumaðurinn Oscar Niemeyer, einn áhrifamesti arkitekt tuttugustu aldarinnar, lést árið 2012, 104 ára að aldri. Hann varð heimsfrægur fyrir byggingar sem hann hannaði fyrir nýja höfuðborg Brasilíu.
Höfuðborg Brasilíu, sem heitir einfaldlega Brasília á portúgölsku, er ólík flestum höfuðborgum heimsins því hún var byggð frá grunni á tuttugustu öld.
Juscelino Kubitschek forseti fyrirskipaði byggingu hennar á sjötta áratugnum. Forsetinn vísaði í ákvæði í stjórnarskrá landsins sem krafði stjórnvöld til að færa höfuðborgina frá Rio de Janeiro inn í miðju landsins til að gæta jafnræðis á meðal fylkja hins víðáttumikla ríkis Brasilíu.
Borgarstæðið sem valið var fyrir nýju höfuðborgina liggur á hárri sléttu, sem nefnist Planalto Central (Miðhásléttan), í miðvesturhluta landsins.
Skipulagsfræðingurinn Lúcio Costa vann samkeppni um hönnun borgarinnar, sem 5550 manns tóku þátt í, og hann réð vin sinn Oscar Niemeyer sem aðalarkitekt. Þeir skráðu nöfn sín á spjöld sögunnar í sögu borgarskipulags og arkítektúrs enda var þetta eitt stærsta verkefni tuttugustu aldarinnar á þeim sviðum.
Costa og Niemeyer hönnuðu Brasilíu í afar módernískum stíl. Stjórnarbyggingarnar; þingið, forsetaskrifstofurnar, forsetabústaðurinn og landsbókasafnið – allar sköpunarverk Oscars Niemeyer – þykja með merkustu gimsteinum arkitektúrs á tuttugustu öld.
Brasília var byggð á 41 mánuði, frá 1956 til 1960. Hér sjáum við magnaðar myndir af byggingu höfuðborgarinnar, en þær tók Marcel Gautherot, frægur fransk-brasilískur ljósmyndari.
Uppfært 6. desember 2012.