Hvernig getur verið að sú listgrein sem er hvað óræðust hafi sterkustu hughrifin? Tónlist er þrátt fyrir allt ekki nema sú merking sem við leggjum í skynjun okkar á blöndu tóna, hljóma og rytma – en þó er líkt og að sá sem kann að tjá hið ósegjanlega um hið mannlega ástand í gegnum syngjandi strengi eða seiðandi söng hafi með einhverju móti beislað náttúröfl handan tilverunnar.
Í verki sínu Descent of Man (1871) velti Charles Darwin ekki aðeins fyrir sér hvernig maðurinn kom til, heldur einnig hvernig tónlistariðkun hans kom til. Fyrir víst má telja að óðalstilhneiging mannsins hafi fylgt okkur frá upphafi – og þá er ekki ólíklegt að frummaðurinn hafi nýtt þau óhljóð sem hann gat framkallað til að merkja sér svæði, eins og þekkt er meðal fleiri dýrategunda.
Ef til vill hafa frumstæð gól og öskur síðan þróast yfir í tónmál, jafnvel áður en þau þróuðust yfir í tungumál. Tónlistarflutningur í bernsku mennskunnar hefur líkast til gegnt samheldnihlutverki fyrir ættbálka – siður sem síðar fléttaðist við trúarlíf og aðrar félagslegar athafnir.
Fyrir suma þjóðflokka hefur tónlist jafnvel verið nytsamlegt tól í lífsbaráttunni, eins og til að mynda sönglínur (e. songlines) frumbyggja Ástralíu. Söngvar sem lýsa því hvernig rata megi um hrjóstrug landssvæði – og hvar vatnsból megi finna – hafa gengið milli kynslóða í aldaraðir, sem eins konar sungið landakort.
Rannsóknir hafa enda sýnt fram á að sá hluti minnisins sem meðhöndlar tónboð varðveitir upplýsingar hvað lengst – og þess ber vitni í notkun tónlistar í meðferð þeirra sem hrjást af Alzheimers. Parkinsonssjúklingum, sem hafa átt í erfiðleikum með mál, hefur einnig tekist að tjá sig á ný í gegnum söng.
Á meðal elstu hljóðfæra sem fundist hafa eru flautur á borð við þá sem fannst við uppgröft í Hohle Fels hellinum í Þýskalandi árið 2008 og er talin vera allt að 35.000 ára gömul.
Því er ljóst að meðvituð tónlistarsköpun hefur verið samtvinnuð lífi karla og kvenna í tugi þúsunda ára áður en maðurinn hafði dreift sér um alla jörðina, hafið landbúnað og – fundið upp hið skrifaða orð.
Fyrsti þjóðflokkurinn sem skildi eftir sig ritað mál voru Súmerar, sem byggðu sunnanverða Mesópótamíu fyrir um 6.000 árum síðan. Á næstu öldum breiddist hið ritaða mál svo hægt og bítandi til nærliggjandi menningaheima. Snemma á 6. áratug seinustu aldar fundust hlutar af leirtöflum með húrrísku letri í rústum Ugarit, fornrar hafnarborgar í Sýrlandi nútímans.
Í ljós kom að tvö brot pössuðu fullkomlega saman, þó svo að annar helmingurinn hefði augljóslega brennst illa fyrir langalöngu. Lítið var vitað um húrríska tungu og því merking rúnaletursins alveg á huldu, fyrir utan eitt orð sem fræðimenn könnuðust við – Nikkal, mánagyðja Mesópótamískrar menningar. Það var ekki fyrr en 1972 að Anne Kilmer, prófessor við Berkeley háskólann, tókst að ráða fram úr ráðgátu leirtöflunnar – þetta voru nótur.
Hér var því komið elsta varðveitta lag mannkynssögunnar svo vitað sé, 3.400 ára gamall sálmur tileinkaður mánagyðjunni Nikkal. Þegar við hlýðum á þetta tónmál fortíðarinnar, skiptir ekki máli hversu fjarlægs staðar og tíma það á rætur að rekja til – við skiljum hverja nótu. Tónlistin gegnir enn samheldnihlutverki sínu.
Ófáir mannfræðingar hafa, í anda fyrrnefndra hugleiðinga Charles Darwin um tilkomu tónlistar, haldið á lofti þeirri tilgátu að þetta tjáningarform hafi þróast út frá samskiptaleiðum frummannsins. Þar með er þó aðeins hálf sagan sögð, því samskipti byggja ekki síður á móttöku en tjáningu.
Samkvæmt sömu tilgátu ætti upplifun mannsins á tónum því að hafa byggst á skynjun hans á mannsröddinni; ljúfir og blíðir tónar skapa jákvæð hughrif (les: losun kvalastillandi endorfíns) – þeir eru huggandi, líkt og róandi rödd móður sem barn heyrir í móðurkviði.
Þessi líkamlegu áhrif tónlistar eru engin ný vísindi: sagan segir að við stjörnuskoðun eitt kvöld hafi stærðfræðingurinn forngríski Pýþagóras tekið eftir því að ölóður ungur maður hafði tekið við að hlaða bálköst utan við dyr fyrrum ástkonu sinnar, sýnilega með það í huga að hús hennar myndi nú fuðra upp á sama hátt og samband þeirra hafði gert.
Pýþagóras tók einnig eftir því að rétt hjá var flautuleikari að flytja tónlist sem var álíka brjálæðisleg og hegðun unga mannsins.
Í stað þess að reyna að róa unga manninn bað Pýþagóras flautuleikarann um að spila rólegra lag, í hinum milda spondaíska tónskala. Það gerði flautuleikarinn og ekki leið á löngu þar til ungi maðurinn róaðist og hóf að fjarlægja sprekið sem hann hafði hlaðið.
Tónlist er bæði tjáning og túlkun. Við sköpum tónlist til að hreyfa við fólki á einhvern hátt, til að deila því sem ekki verður sagt með orðum – og við hlustum til að heyra tjáningu sammannlegra tilfinninga; til að heyra rödd hinna.
Tökum smá dæmi: hlustaðu á næsta tóndæmi áður en þú lest lengra. Hvaða tilfinning liggur að baki þessu tónverki – hvað er höfundur að tjá í þessu verki? Hlustaðu og sjáðu hvort þú finnir sameiginlegan streng milli þín og höfundarins, Emily Howell.
„Æðsta takmark tónlistarsköpunar er að vera Guði til dýrðar og fyrir upplyftingu sálarinnar“
– J.S. Bach
„Mér líður vel á meðan ég sit við píanóið og sem tónlist – en hvernig getum við leyft okkur að vera hamingjusöm á meðan aðrir þjást? Ég myndi gera hvað sem er til að færa mannkyninu þó ekki nema eina hamingjustund. Það er drifkrafturinn á bakvið tónlistarsköpun mína“
– Nino Rota
„Ég sá allar stelpurnar sem dáðu tónlistarmenn. Ég var graður. Ég fékk lánaðan gítar bróður míns og byrjaði að læra á hann“
– Angus Young, úr AC/DC.
Markmið með tónlistarsköpun getur verið göfugt eða sjálfhverft, innhverft eða úthverft, andlegt eða veraldlegt – allt eftir því hver á í hlut. Aftur á móti er það ekki svo að öll tónlist sé beinlínis samin.
Aleatórísk nefnist sú tónlist þar sem tilviljun er látin ráða framgangi tónverks að hluta eða í heild sinni. Heitið er dregið frá latneska orðinu yfir teninga – alea – og á rætur að rekja til leiks þar sem teningakast er látið ráða í hvaða röð vissar hendingar eru leiknar. Verkið Gioco filarmonico (1790) eftir Joseph Haydn var til að mynda skapað með þessari aðferð.
Fjarstæðulistamanninum Marcel Duchamps var einkar hugleikið að snúa upp á viðteknar venjur hvað varðar skilgreiningar á því hvað telst sem list og hvað ekki. Þetta fólst til að mynda í því að finna listrænt gildi á óvæntum stöðum – þekktasta dæmið er sennilega verkið Fountain (1917), sem var í raun venjuleg þvagskál.
Áður en hann hneykslaði listaheiminn með þessu verki hafði hann skipulagt tónverkið Erratum Musical árið 1913, þar sem 75 nótur voru dregnar upp úr hatti og tilviljun ein ákvarðaði í hvaða röð þær yrðu leiknar.
Síðar átti tónskáldið John Cage eftir að notast mikið við notkun tilviljunar við tónlistarsköpun, þar á meðal í verki sem hann flutti ásamt Marcel Duchamps árið 1968 – sem fólst í skákeinvígi þeirra á milli, þar sem ófyrirframákvarðaðar hreyfingar taflmanna verkuðu sem tónlistarstjórn á hljóðfæraleikara í salnum.
Hvort tónverk sem samin eru á handahófskenndan máta séu ánægjuleg áheyrnar er að miklu leyti aukaatriði – ef fyrir koma ánægjulegar hendingar er það fyrir algera hendingu. Það sem máli skiptir er hvaða ljósi þessir gjörningar varpa á það hvernig við skilgreinum listina.
Er einhver merking í tónlist sem er sköpuð á þennan máta? En hvað um merkingu í verkum tónlistarforritsins Experiments in Musical Intelligence (EMI – Emmy – Emily Howell )?
Um áratuga skeið hefur tónskáldið, prófessorinn og tölvunarfræðingurinn David Cope unnið að þróun forrita sem geta skapað tónlist og er Emily Howell það forrit sem hann vinnur að um þessar mundir.
Í árdaga heimilistölvunnar færði David Cope ógrynni af tónverkum eftir t.a.m. Bach og Mozart inn í forrit sem hann hafði skapað og nefndi Emmy.
Markmiðið var að forritið myndi finna stærðfræðileg mynstur á bakvið öll þessi verk og með þessa þekkingu gæti það skapað „glænýtt“ tónverk eftir Mozart á augabragði – þ.e.a.s. verk sem bæri öll merki og stílbrigði sem einkenna tónlist eftir Mozart.
Hraðinn sem forritið tekur að semja flókið tónverk í anda meistaranna er undraverður – eitt eftirmiðdegi skrapp Cope út eftir samloku og hafði Emmy í gangi á meðan. Þegar hann kom aftur hafði Emmy fullklárað heil 5000 kórverk í stíl Bach.
Verkin sem forritið hefur dælt út síðan 1981 hafa staðist Turing-prófið, sem er mælikvarði á gervigreind og hljóðar svo: er vél orðin svo þróuð að ómögulegt er að sjá mun á verkum hennar og manna? Síðustu ár hefur Cope unnið að Emily Howell – sem er hannað til þess að framkalla eigin frumsömdu tónlist.
Tónlist Emily á sér ekki marga aðdáendur og þessu verkefni David Cope hefur ekki verið mætt af miklum áhuga og á stundum jafnvel mætt nokkurri andstöðu. Hefur tónlist eftir vélmenni eitthvað fram að færa?
Samkvæmt David Cope hefur Emily Howell jafnmikið fram að færa og mannfólkið. Tónlist er í grunninn ekki annað en stærðfræðileg mynstur sem tölvuforrit geta skapað, rétt eins Bach eða Mozart.