Fyrr í dag vakti Lemúrinn athygli á því að Afríkuríkið Máritanía fagnar þjóðhátíðardegi sínum í dag. En þann 28. nóvember heldur Albanía einnig upp á sinn þjóðhátíðardag. Þá minnast Albanir þess þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði frá hinu niðurgrotnandi Ottómanveldi, 28. nóvember árið 1912.
Saga Albaníu hefur síðan verið stormasöm. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar og til ársins 1990 var landið kommúnistaríki og næstum algjörlega einangrað frá umheiminum. Eftir fall kommúnismans hefur aðlögun að markaðshagkerfi einnig gengið örðuglega. Á tíunda áratugnum var hagkerfi landsins undirlagt af risastórum pýramídasvindlum sem meirihluti Albana féllu fyrir og töpuðu gífurlegum fjárhæðum. Þegar svindlin féllu árið 1997 brutust út óeirðir og landið rambaði um tíma á barmi borgarastyrjaldar.
Landið er enn með fátækustu ríkjum Evrópu og spilling er mikil en margir vona að betri dagar séu í nánd. Hagkerfi landsins hefur vaxið undanfarin ár, landið hefur fengið aðild að NATÓ og sótt um aðild að Evrópusambandinu.
Til þess að halda upp á þjóðhátíðardaginn fór Lemúrinn á YouTube og fann til nokkur nýleg albönsk popplög.
Aurela Gaçe er ein vinsælasta poppsöngkona Albaníu sem næst hyggur á meik í Bandaríkjunum.
Enis Bytyqi lendir í veseni á þjóðveginum.
Hinn alþýðlegi Sinan Hoxha er ávallt umvafinn fögru kvenfólki.
Litríku strákarnir í NRG Band og rapparinn Capital-T.
Þjóðlagapopp með Perlat Pashaj og flokki fimra pilsklæddra dansara.
Áhugasömum er einnig bent á grein Lemúrsins um tónlistarmenningu Albaníu á dögum kommúnismans: Enver Hoxha brýnir sverð sitt!