Á sjöunda áratugnum átti fátækasta og einangraðasta land Evrópu, Alþýðulýðveldið Albanía, bara einn vin í heiminum: Kína. Þegar Maó formaður hleypti Menningarbyltingu sinni af stokkunum árið 1966 fylgdi Enver „frændi“ Hoxha, einvaldur Albaníu frá stríðslokum, fast á hæla hans. Allt sem þótti borgaralegt og vestrænt var úthrópað eða bannað.

 

Árið 1973 voru skipuleggjendur og keppendur í fyrstu söngvakeppni albanska ríkissjónvarpsins dæmdir til áratugalangra fangelsisvistar þar sem einræðisherranum þótti listamennirnir „apa eftir Ítölum“ og vera með of djarfar hárgreiðslur.

 

Fyrsta söngvakeppni albanska ríkissjónvarpsins

Vídjó

 

Þetta þýðir ekki að Enver frændi hafi ekki verið tónelskur maður—annar liður albönsku menningarbyltingarinnar var að þjóðlegum gildum og menningu var hampað, þar á meðal tónlist. Rík tónlistarmenning albönsku þjóðarinnar einkennist af miklum kvæðabálkum um hetjur og hershöfðinga úr blóðugri sögu hennar. En í „stuðningi“ einræðisherrans við þjóðlega tónlist fólst að lögin voru í staðinn látin snúast um hann, hina eina sönnu hetju albönsku þjóðarinnar.

 

Vídjó

 

Á hverju ári voru skrifuð ógrynni af þjóðlögum sem lofuðu Enver og flutt á afmælisdegi hans. Hér má sjá einræðisherrann kjökrandi á 75 ára afmælisdeginum, 1983, á meðan suður-albanskan kór flytur honum mikinn fagurgala:
„Ó, þú snæviþakti fjallstindur sem ekkert ský fær hulið! Nafn þitt er gleði frelsisins, blóm á vörum hvers barns. Enver lengi lifi!“

 

Vídjó

 

Þjóðlag í norður-albönskum stíl: „Enver Hoxha brýnir sverð sitt, […] sverðið sem hangir yfir höfðum allra óvina um heim allan. Enver Hoxha lengi lifi!“

 

Lagið hér að ofan, Enver Hoxha tungjatjeta, var með vinsælari lofsöngvum um foringjann. Áhugasömum er einnig beint á þessa útgáfu spilaða á çifteli, þjóðarhljóðfæri Albaníu, og þetta atriði úr áróðurskvikmyndinni „Ljós flokksins“.

 

Vídjó

 

Annað lag úr afmælisfagnaðinum 1983 lofar Gjirokastër, borgina í suðri þar sem Enver Hoxha fæddist árið 1908. „Vel gert, sonur fólksins! Við skjótum svikara beint í einnið! Við verndum Flokkinn eins og demant!“

 

Fylgist með til loka lagins eftir þrjár og hálfa mínútu—áhorfendaskarinn rís upp í taumlausum óstöðvandi fagnaði.