Í ágústmánuði árið 1968 tóku yfirvöld í Alþýðulýðveldinu Kína við opinberri sendinefnd frá Pakistan. Fyrir sendinefndinni fór utanríkisráðherra Pakistans. Utanríkisráðherrann var með gjöf til Maó formanns meðferðis: körfu með sjö mangóum. Mangó er þjóðarávöxtur Pakistans, og pakistönsk mangó talin sérstaklega ljúffeng.

 

Því miður var Maó sjálfur lítið fyrir mangó. Hann var í raun alls ekki hrifinn af þeim. Þegar pakistönsku gestirnir fóru losaði formaðurinn sig því við ávextina. Hann lét gefa öll mangóin sjö til sjö Maóisma-áróðurssveita sem störfuðu í höfuðborginni Beijing.

 

Maóisma-áróðurssveitirnar‘ voru skipaðar bændum og verkamönnum — eldheitum kommúnistum — sem fóru milli skóla og verksmiðja, vopnaðar hinum sanna boðskap Formannsins. Rúmum tveimur árum áður hafði formaðurinn hleypt af stokkunum hinni heiftarlegu menningarbyltingu. Einn liður í menningarbyltingunni voru ungmennahreyfinga Rauðu varðliðanna. Starf þeirra hafði fljótt farið úr böndunum og háskólar landsins og verksmiðjur nú vettvangur ofbeldisfullra innbyrðis átaka og flokkadrátta Varðliða. Hlutverk Áróðursveitanna var kveða niður átökin og koma skikki á Varðliðana.

 

Heppnir handhafar mangóa Maós.

 

Í glundroða og þrúgandi andrúmslofti menningarbyltingarinnar voru mangó ekki einungis mangó. Mangó Formannsins voru túlkuð sem stuðningsyfirlýsing við starf Áróðurssveitanna, og mark um djúp vonbrigði hans á Rauðu varðliðunum.

 

En mangóin þóttu jafnframt sýna örlæti og umhyggju Maós gagnvart öreigunum. Áróðurssveitirnar sem fengu mangóin voru svo frá sér numin af gleði að það hvarflaði ekki að þeim að einfaldlega borða ávextina. Mangóin urðu að einskonar helgigripir, guðleg gjöf hins umhyggjusama Formanns.

 

Kínverskir verkamenn með mangóin sjö. Brot af áróðursplakati frá 1968.

 

Mangóunum var komið fyrir í glerhólfum, á einskonar altörum, prýddum ásjónu hins mikla og örláta leiðtoga. Síðan voru þau til höfð sýnis fyrir aðdáunarfullan almúgann, eða marserað með þau um götur eins og íkon í helgigöngu.

 

Verkamenn virða fyrir sér mangóin.

 

Mangóin voru til sýnis og notuð í skrúðgöngum.

 

Það olli miklum áhyggjum hinna heppnu mangóhafa hvernig varðveita ætti hina dýrmætu ávexti. Gjör formannsins mátti aldrei gleymast! Áróðurssveitin sem starfaði í Alþýðuprentsmiðjunni í Beijing reyndi að varðveita sitt mangó um alla eilíft með því að setja það í formaldehíð. Það gekk ekki — mangóið eyðilagðist, málsaðilum til mikillar sorgar.

 

Í annari verksmiðju var mangóið soðið niður í risastórum potti. Svo fékk hver verkamaður að drekka örlítið af soðinu, sem átti að fylla þá með heilögum byltingaranda Maós.

 

Vaxmangó til minnis um örlæti formannsins.

 

Loks var brugðið á það ráð að búa til nákvæmar eftirlíkingar af mangóunum úr vaxi. Eftirlíkingarnar voru framleiddar í miklu magni og dreyft út um allt land. Mangóin voru jafnframt prentuð á plaköt, nælur og diska. Áróðurskvikmynd frá tímum menningarbyltingarinnar ber nafnið Söngur um mangó.

 

Plakatið hér að ofan ber titilinn Dýrmæt gjöf hins mikla leiðtoga Maó formanns til Maóisma-áróðurssveita verkamanna í höfuðborginni — mangó.