Charles Manson mun um alla eilífð verða minnst sem holdgervings illskunnar – leiðtoga sérstrúarsöfnuðarins sem slökkti friðarljós sjöunda áratugarins með hinum hryllilegu morðum á leikkonunni Sharon Tate og félögum hennar. En rétt eins og annar vitfirrtur kynþáttahatari, var Manson misheppnaður listamaður. Hitler reyndi við myndlistina, en draumur Mansons var að slá í gegn sem tónlistarmaður.

 

Manson myndaði tengsl við mikilvægt fólk í bransanum, á borð við meðlimi The Beach Boys, Neil Young og upptökustjórann Terry Melcher. Partýdýrið Dennis Wilson, trommari The Beach Boys, hleypti Manson inn á heimili sitt kvöld eitt þegar hann birtist óboðinn til að hitta vinkonur sínar sem þar voru. Heimili Wilsons varð fjótlega að fyrstu bækistöð Manson-fjölskyldunnar.

 

Sturluð morðhippafjölskylda á góðum degi

 

Í fyrstu stóð Wilson nokkuð á sama um að heimili hans væri orðið að sérkennilegri kommúnu, enda fylgdi Manson ávallt nóg dóp, stelpur og partý – en þegar hin ógeðfellda hlið Manson varð honum ljósari, yfirgaf hann húsið og skyldi Manson-fjölskylduna eftir.

 

Wilson hafði þá þegar kynnt Manson fyrir syni Doris Day, upptökustjóranum Terry Melcher, sem hafði meðal annars tekið upp risasmellinn Turn Turn Turn með The Byrds. Þrátt fyrir að hafa sýnt tónlist Manson áhuga í upphafi, neitaði Melcher að gera samning við hann – og eftir að hafa orðið vitni að ofbeldishegðun furðufuglsins ákvað hann að slíta öll bönd við hann.

 

Manson brást að sjálfsögðu ekki við með jafnaðargeði, enda byrjaður að predika yfir söfnuði sínum um komandi ragnarök yfirvofandi kynþáttastríðs. Samkvæmt honum myndu hinir þeldökku brátt útrýma öllu hvítu fólki í Bandaríkjunum og þess vegna þyrfti fjölskyldan brátt að  fela sig neðanjarðar, þar til styrjöldinni lyki. Þá myndu þau snúa aftur til þess að drottna yfir landinu, enda Manson útvalinn af Guði. Á meðal þess sem Manson skynjaði sem tákn Guðs um að hann væri frelsarinn endurborinn, voru textar Bítlanna af Hvíta albúminu. Samkvæmt Manson voru Bítlarnir englar sem fluttu honum dulin skilaboð um ragnarökin – einkum í laginu Helter Skelter.

 

Vísanir í Bítlalög voru skrifuð um alla veggi – sumsstaðar með blóði fórnarlambanna

 

Þegar hvergi bólaði á byltingunni ákvað Manson að hann þyrfti sjálfur að koma henni í gang, með því að fremja ógeðfelld ofbeldisverk í von um að þeldökkum yrði kennt um. Þegar í ljós kom að Melcher hafði flutt af heimili sínu og svaraði ekki lengur skilaboðum Manson, fannst honum að hann þyrfti að senda honum skilaboð.

 

Það var að kvöldi þess 8. ágúst 1969 sem heilaþvegnir fylgismenn Mansons drápu á dyr Cielo Drive 10050, þar sem Melcher hafði áður búið. Núverandi leigjendur voru hins vegar leikkonan Sharon Tate og eiginmaður hennar Roman Polanski, sem þá var staddur í London vegna undirbúningsvinnu fyrir nýja kvikmynd.

 

Það sem átti sér stað þetta kvöld við Cielo Drive 10050 er ógeðfelldara en orð fá lýst. Morðsveit Mansons pyntaði og myrti alla sem inni á heimilinu voru – þar á meðal Sharon Tate, sem var komin átta og hálfa mánuði á leið.

 

Nokkrum mánuðum seinna fóru fram réttarhöldin yfir fjölskyldunni og Charles Manson var orðinn heimsfrægur. Þá dró Phil nokkur Kaufman fram þriggja ára gamlar upptökur af Charles Manson og gaf út undir titlinum LIE.

 

Á plötunni syngur og spilar Charles Manson frumsamin lög í þeim stíl sem var í tísku á þessum árum, blöndu af þjóðlagastíl og blús. Söngröddin er ekki afleit, en lagasmíðarnar eru furðulega hversdagslegar miðað við það hver höfundur er. Þegar rýnt er í textana má þó glitta í brenglaðan hugarheim Manson. Í laginu Look at Your Game, Girl segir hann stúlku að líf hennar sé fals og blekking…

 

Vídjó

 

… og í laginu Cease to Exist biður hann hlustanda um að  afneita sjálfinu og gefa sig sér á vald – eins og hann bað vafalaust stúlkurnar sínar um að gera þegar hann heilaþvoði þær.

 

Vídjó

 

LIE var gefin út í 2000 eintökum, en aðeins 300 þeirra seldust. Platan hefur þó í tímans rás heillað marga forvitna tónlistaráhugamenn og lög af henni hafa til dæmis verið flutt af hljómsveitum á borð við Guns N’ Roses, Marilyn Manson og… The Beach Boys. Áður en morðin voru framin hafði Dennis Wilson nefnilega samið við Manson um að fá að eiga eitt af lögum hans, til að bæta upp fyrir að hafa rústað heimili sínu. Fyrir valinu varð Cease to Exist, sem þeir endurskýrðu Never Learn Not to Love.

 

Að lokum eru hér því hinir heilnæmu sólstrandardrengir að syngja ljúft lag um heilaþvott, eftir vitfirringinn blóðþyrsta Charles Manson.

 

Vídjó