Vídjó

 

Þetta rapplag, You Want Another Rap?, sló í gegn í Úganda síðasta vetur. Flytjandi lagsins er hinn sjötugi Yoweri Museveni, forseti Úganda síðan 1986.

 

Lagið er svo tilkomið að í ræðu á flokksfundi greindi Museveni (‘Sevo’) frá því að ungir landar hans hafi sagt honum frá „þessari rapptónlist“, sem nýtur vinsælda í Úganda eins og annarstaðar. Tal þeirra um rappið hafi minnt hann á hefðbundnar rímnaþulur sem fólk fer með á heimahögum hans í vesturhluta Úganda. Síðan fór hann með tvær slíkar þulur fyrir áhorfendur sína.

 

Einhver tók síðan upptöku af þessu og bætti við takti. Afraksturinn sló í gegn á útvarpsstöðvum Úganda, á YouTube og sem hringitónn í farsímum stuðningsmanna forsetans.

 

Kosningar voru í Úganda í Febrúar í ár og lofaði Museveni stuðningsmönnum sínum að yrði hann endurkjörinn myndi hann gefa út heila plötu með rapplögum. Museveni var endurkjörinn við ansi grunsamlegar aðstæður, en því miður bólar enn ekkert á plötunni.