Hér gefur að líta á heimskort (sem skoða má hér í hárri upplausn) sem á að sýna veröldina eftir síðari heimsstyrjöldina. Kortagerðarmaðurinn var Bandaríkjamaðurinn Maurice Gomberg sem teiknaði það árið 1942, skömmu eftir að Bandaríkjamenn höfðu dregist inn í hildarleik styrjaldarinnar eftir árás Japana á Perluhöfn á Hawaii. Stjórnvöld komu ekki að gerð kortsins og það sýnir aðeins hugmyndir áðurnefnds Gombergs, verkefni sem hann virðist hafa unnið sér til dægrastyttingar en lítið er yfirleitt vitað um hann.

 

Veröldin samkvæmt „Hinni nýju siðgæðisskipan heimsins“ er mjög breytt. Lítil ríki þekkjast ekki lengur og nær öllu landsvæði jarðar er skipt á milli nokkurra risastórra ríkja.

 

Til Bandaríkjanna telst öll Norður- og Mið-Ameríka, eyjar á Karíbahafi og svo ýmsar eyjar um heiminn sem skilgreindar eru sem verndarsvæði (protectorates) þeirra, til dæmis Filipseyjar og Tævan. Ísland er og eitt þessara verndarsvæða Bandaríkjanna. Auk þess teljast tvær mikilvægar hafnir í Afríku, Freetown og Dakar til þessa mikla ríkis.

 

Suður-Ameríka er eitt stórt sambandsríki allra landanna þar, Bandaríki Suður-Ameríku, USSA. Afríka er sömuleiðis eitt stórt sjálfstætt ríki, fyrir utan fjölmargar borgir og hafnir sem teljast til breska heimsveldisins. Bretar ráða enn yfir mörgum nýlendum, þar á meðal Madagaskar, Indónesíu og Ástralíu.

 

Í þessari nýju og réttlátu heimsskipan eru Sovétríkin geysilega víðáttumikil og ráða yfir Þýskalandi, sem Gomberg spáði rétt fyrir um að yrði sundursprengt að stríði loknu. Auk þess er öll Austur-Evrópa, Íran, Mongólía og fleiri ríki á hendi Kremlar.

 

Skandinavía er eitt stórt ríki Norðmanna, Dana og Svía en Finnland tilheyrir Sovétríkjunum. Færeyjar tilheyra breska samveldinu og Írland er merkilegt nokk sjálfstætt ríki.

 

Til Bandaríkja Evrópu tilheyrir svo restin Vestur-Evrópu, Portúgal, Spánn, Ítalía, Frakkland og Benelúxlöndin. Grikkland og Tyrkland eru hvort um sig sjálfstæð ríki og á Arabíuskaganum er bæði víðfeðm ríki Gyðinga og Araba.

 

Kína er geysilega stórt ríki sem ræður yfir Tælandi, Malasíu, Víetnam, Laos, Kambódíu og Kóreu. Og Indland er sömuleiðis stórt.

 

Japan er lokuð sóttkví og er öllum íbúum þess bannað að ferðast til Bandaríkjanna.