Hann er síðasti eftirlifandi meðlimur indíánaættbálks í Amasón-frumskóginum í Brasilíu. Hann býr aleinn innan um dýrin í frumskóginum – baneitraðar köngulær, kattliðuga apa og hrínandi villisvín. Fæstir myndu koma auga á hann, römbuðu þeir fyrir slysni á svefnstaðinn hans, því hann fellur inn í landslagið líkt og marfló á svartri fjöru.
Brasilísk yfirvöld fengu fyrst veður af manninum fyrir um fimmtán árum síðan. Menn komust að því að hann væri síðasti meðlimur ættbálks sem menn vissu sárfátt um, annað en það sem nokkrir frumskógarfarar höfðu vitnað um í stuttu máli áratugum fyrr. Næstu árin eftir að maðurinn uppgötvaðist gerðu yfirvöld út nokkra leiðangra, sem farnir voru til þess að kanna lifnaðarhætti hans, hvort hann væri við heilsu og vanhagaði um eitthvað. Þá kom í ljós að skelfilegir atburðir höfðu gerst í frumskóginum.
Árið 2007, þegar skógarhögg var hafið víða í nágrenni við manninn, ákváðu stjórnvöld að helga manninum verndarsvæði. Bannað er að ferðast – eða gera nokkuð annað – á landsvæðinu, í fimmtíu kílómetra radíus í kringum manninn. Og hann er enn þá í frumskóginum, aleinn.
Eins og bandaríski blaðamaðurinn Monte Reel bendir á í bók sinni um manninn, Last of the Tribe (ísl. Sá síðasti af ættflokknum) hefur það auðvitað áður gerst í sögunni að fólk hafi lifað óáreitt á afskekktum stöðum og hvergi komist í tæri við samfélag manna í þjóðríkjunum þar sem þeir búa. En Monte Reel skrifar að maðurinn í Brasilíu sé þó einstakur, ekki fyrir það eitt hversu öfgakennd einsemd hans er, heldur hvernig brasilísk stjórnvöld hafi brugðist við – og komið honum til hjálpar.
Monte Reel ræðir um bók sína Last of the Tribe.
Blaðamaðurinn rekur í bókinni að Brasilíustjórn prófi nú nýjar leiðir til verndunar viðkvæmum og einangruðum ættflokkum. Í tilviki einangraða mannsins miða þær að því að hann fái sjálfur að velja hvort hann vilji hafa samskipti við umheiminn. Hann verði látinn óreittur, vilji hann ekki hafa samneyti við nútímaþjóðfélagið.
Það hefur gerst endurtekið á síðustu áratugum að meðlimir ættflokka í afskekktum stöðum hafi lent í miklum vanda og óhamingju þegar þeir neyddust til að aðlagast „nútímanum“. Þýski kvikmyndagerðarmaðurinn Werner Herzog komst að því um aldamótin síðustu, þegar hann gerði stuttmyndina Tíu þúsund árum eldri .
Hin nýja stefna stjórnvalda miðar að því þveröfuga – að varðveita menningu ættflokkanna með því að láta þá afskiptalausa og verja landsvæði þeirra fyrir ágangi samfélagsins.
Vitað af honum frá 1996
Umheimurinn uppgötvaði manninn árið 1996 þegar ferðalangar í frumskóginum sögðu frá honum. Útsendarar yfirvalda, sérfræðingar í einangruðum ættbálkum, fóru inn í skóginn og fundu lítinn yfirgefinn laufkofa með dularfullri holu í miðjunni. Þeir komust að því að maðurinn var á flótta – hljóp frá einum kofa í annan og var stöðugt í felum.
Útsendararnir fundu hann loksins. Hann var nakinn, virtist vera á fertugsaldri (hann er því að nálgast fimmtugt í dag), og var ávallt vopnaður boga og örvum. Það var ekki auðvelt að nálgast manninn, hann brást illa við trufluninni og skaut ör í brjóstið á einum komumannanna. En útsendararnir komust að því að maðurinn hafði upplifað hræðilega atburði. Þeir fundu kofarústir og fundu út að það hafði verið þorpið hans, sem gráðugir landnemar og skógarhöggsmenn höfðu brennt skömmu áður og líklega drepið alla meðlimi ættbálksins – fyrir utan hann. Skömmu áður hafði komið í ljós að grimmir menn höfðu myrt meðlimi af öðrum ættbálkum í grenndinni.
Grimmir skógarhöggsmenn
Í þessum hluta Amasón-frumskógarins, í Rondonia-fylki í vesturhluta Brasilíu, við landamæri Bólivíu – og víðar – hafa menn stundað eitt mesta skógarhögg sögunnar á stuttum tíma, þar sem þúsundum hektara af skóglendi hefur verið rutt í burtu, á kostnað plantna, dýra og ættbálkanna sem hafa búið í frumskóginum í þúsundir ára.
Manninum hefur, eins og áður segir, nú verið helgað verndarsvæði og hann getur enn ráfað einn í frumskóginum sínum. Hann býr til eigin vopn, veiðir sér til matar, safnar ávöxtum. Hann ræktar dálítið af maís og kassava og safnar hunangi úr býflugnabúum í trjábolum. Hann er líkt og síðasti íbúi veraldar sem nú mun líða undir lok.
Hversu lengi?
Monte Reel spyr hversu lengi maðurinn geti enst, aleinn í frumskóginum, á öld tækninýjunga sem færa mennina stöðugt nær hver öðrum. „Ég sé á Facebook hvað fólk í öðrum heimsálfum fær sér í morgunmat. Stórfyrirtæki og stjórnvöld seilast nú sem aldrei fyrr lengra í leit sinni að auðlindum. Hvernig getur það verið að enginn hafi sturtað þessum manni niður enn þá?“
En Reel bendir þá að margir Brasilíumenn telja að tækniþróun muni þvert á móti hjálpa fólki á borð við umræddan indíána. Sérfræðingar stjórnvalda, sem hafa hjálpað indíánunum, segja að eftir því sem fleiri heyri af örlögum einangraða mannsins – sem er alltaf að verða auðveldara, og gerist til dæmis með þessari blaðagrein – því öruggari verði hann fyrir árásum ónefndra landnema í frumskóginum.
„Google Earth og önnur kortaforrit geta aðstoðað við að vakta svæðið hans. Í stað þess að leggja af stað í truflandi leiðangra inn í frumskóginn til ættbálkanna, til að athuga hvort þeir séu við heilsu, hafa brasilísk stjórnvöld lýst því yfir að þau ætli að gera tilraunir á hitasæknum mælum sem geta verið notaðar í flugvélum sem fljúga nógu hátt til að valda engri truflun á landi,“ skrifar Monte Reel, sem hefur þó miklar áhyggjur af velferð einangraðasta manns í heimi – og allra hinna indíánanna sem eru í svipuðum sporum.
Birtist áður í DV, árið 2010.