Mörg lönd heims hafa nú nýlega lokið við að velja þá kvikmynd sem verður framlag þeirra til Óskarsverðlaunanna 2012 sem besta erlenda myndin. Lönd fara mismunandi leiðir í vali á mynd: á Íslandi kjósa meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar um mynd. Í Rússlandi sér nefnd leikstjóra og annara mektarmanna í kvikmyndaiðnaði landsins um valið, en val nefndarinnar í ár hefur verið mjög umdeilt. Bæði meðal almennings, fjölmiðla og innan nefndarinnar sjálfrar.
Lesendur ættu margir að kannast við mynd stjörnuleikstjórans rússneska Nikita Mikhalkovs, Sólbruna (Utomlyonnye solntsem, e. Burnt by the Sun). Í myndinni fer leikstjórinn sjálfur með aðalhlutverkið, herforingja í Rauða hernum sem verður fyrir barðinu á hreinsunum Stalíns seint á fjórða áratugnum. Myndin naut hylli og vinsælda víða um heim og fékk einmitt Óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin.
Það vakti því talsverða undrun þegar Mikhalkov tilkynnti 15 árum síðar að hann hygðist framleiða framhaldsmynd, Sólbruna 2. Framhaldsmyndirnar urðu á endanum tvær, Exodus og Citadel. Sögusvið beggja er austurvígstöðvar seinni heimsstyrjaldar — herforinginn Mikhalkovs er sloppinn úr gúlaginu og berst nú hetjulega við Nasista. Báðar hafa myndirnar mælst einstaklega illa fyrir, bæði meðal áhorfenda og gagnrýnenda. Sérstaklega sú síðari, en það var einmitt sú mynd sem nefndin valdi nýlega sem framlag Rússa til Óskarsverðlaunanna.
Treiler Sólbruna 2: Citadel. Myndin var rándýr og er versta flopp rússneskrar kvikmyndasögu.
Aðrar myndir sem komu til greina voru Elena, nýjasta mynd hins rómaða leikstjóra Andrey Zvyagintsev, og svo Faust Alexanders Sokurovs, sem vann aðalverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Að velja hið risavaxna flopp Mikhalkovs framyfir þessar tvær myndir þykir ansi furðulegt.
Kann það að hafa eitthvað með hið óvenjulega val að gera að Nikita Mikhalkov, leikstjóri Sólbruna, er sjálfur meðal nefndarmeðlima. Mikhalkov hefur gríðarmikil áhrif í rússneska kvikmyndaiðnaðinum — hann er formaður félags rússneskra kvikmyndagerðarmanna, og auk þess einkavinur Vladimírs Pútíns forsætisráðherra.
Pútín heldur einmitt mikið upp á myndir vinar síns. Næstsíðasta mynd Mikhalkovs, 12 frá árinu 2007, var endurgerð á hinni frægu mynd Sidney Lumets, 12 Angry Men. Í myndinni miskunna tólf rússneskir kviðdómarar sér yfir ungan téténskan strák sem ásakaður var um glæp. Það kom fram í fjölmiðlum að Pútín hefði horft á myndina á setri sínu ásamt forsetum Téténíu og Ingúsétíu, og voru þeir félagarnir að sögn svo snortnir yfir hinum góðu og miskunnsömu Rússum sem þar birtust, að þeir felldu tár.
Treiler myndarinnar 12. Mikhalkov lék að sjálfsögðu aðalhlutverkið í þeirri líka.
Formaður Óskarsnefndarinnar, leikstjórinn Vladimir Menshov (sem einnig fékk Óskarsverðlaunin, árið 1980 fyrir myndina Moskva trúir ekki á tár), mótmælti vali eigin nefndar harðlega og neitaði lengi að skrifa undir valið. Mikhalkov og yfirvöld létu þó mótmælin eins og vind um eyru þjóta og Sólbruni 2 mun keppa fyrir Rússlands hönd á Óskarsverðlaunum á næsta ári.