Þann 3. júní síðastliðinn lést bandaríski meinafræðingurinn Jack Kevorkian, stundum einnig kallaður ‘Doktor Dauði‘. Hann var þekktur fyrir ötula baráttu fyrir líknardrápum, rétti þungt veikra sjúklinga að fá sjálfir að ákveða að binda enda á líf sitt með læknishjálp. Sjálfur hjálpaði hann 130 manns að yfirgefa heim okkar með þessum hætti, og fékk fyrir það að dúsa í fangelsi í átta ár.

 

Til þess að aðstoða sig við líknardrápin hannaði Kevorkian sérstaka vél, sem hann kallaði Thanatron eftir gríska dauðaguðinum Thanatos. Sjúklingurinn sem vill deyja ýtir þá á takka, og vélin hefst handa við að dæla banvænum lyfjakokteil í bláæð hans. Kokteilinn var sá sami og dauðadæmdir fá í bandaríkjunum: saltvatn, svefnlyfið sodium thiopental, hið vöðvaslakandi pancuronium bromide og svo kalíumklóríð sem stöðvar hjartslátt á örfáum mínútum.

 

Á föstudag var haldið uppboð á munum úr dánarbúi Kevorkians í New York. Þar á meðal sjálfsmorðsvélin. Frænka Kevorkians og erfingi hafði vonast til að fá á bilinu 100.000-200.000 Bandaríkjadali fyrir vélina (11-23 milljónir króna), en hæsta boð var einungis 50.000 dalir (5.600.000 íslenskra króna), og seldist vélin því ekki.

 

Auk vélarinnar voru til sölu á uppboðinu á annan tug málverka eftir Kevorkian, sem var öflugur málari í frístundum. Jafn illa gekk að selja þau. Enda eru málverkin öll í haldi Armenska bókasafnsins í Bandaríkjunum, sem heldur því fram að hinn armenskættaði Kevorkian hafi eftirlátið bókasafninu verkin. Erfinginn neitar því og hafa báðir aðilar höfðað mál vegna verkanna.

 

‘1915 Þjóðarmorð 1945’, eitt málverka Jacks Kevorkian. Blóðið sem lekur úr hausnum er alvöru blóð úr doktornum sjálfum.