BBC sagði frá því á dögunum að spænska smáþorpið Juzcar, skammt frá Malaga, logi í illdeilum eftir að ákveðið var að mála öll hús í þorpinu blá, til þess að auglýsa nýjustu kvikmyndina um Strumpana. 4.200 lítrar af málningu fóru í að mála bæinn bláann, en skiljanlega eru ekki allir bæjarbúar ánægðir með þetta uppátæki.
Aðstandendur Strumpanna hefðu getað sparað sér málninguna — því bláa borg er þegar að finna rétt handan við Gíbraltarsund. Borgin Chefchaouen er í Rif-fjöllum í norðvesturhluta Marokkó. Húsin í gamla bæ Chefchaouen eru nær undantekningarlaust máluð blá og hafa verið í aldaraðir, löngu áður en Strumparnir komu til sögunnar.
Borgin Chefchaouen var stofnuð á síðari hluta 15. aldar af Márum sem vörðust þaðan innrás Portúgala til Marokkó. Nokkru síðar flykktust þangað márískir flóttamenn eftir að kristnir menn endurheimtu Spán.
Gyðingar voru á árum áður stór hluti íbúa Chefchaouen og sagt er að bláa litinn megi upphaflega rekja til þeirra.
Chefchaouen er skammt frá Tangiers og var á fyrri hluta 20. aldar hluti af hinni smáu nýlendu Spánverja í Marokkó. Borgin er í dag vinsæll viðkomustaður ferðamanna til Marokkó, Spánverja og annarra.
Íbúar Chefchaouen í dag eru rúmlega 35.000, að stórum hluta Berbar.
Auk túrismans rækta bæjarbúar og selja mikið magn maríjúana, en neysla þess nýtur mikilla vinsælda í Marokkó.